Heimildaþáttaröð um varnarliðið frumsýnd
Heimildaþáttaröðin „Varnarliðið“ hefst á RÚV sunnudaginn 7. janúar nk. kl. 19:45 en þættirnir eru fjórir talsins og fjalla um sögu bandaríska varnarliðsins á Íslandi á árunum 1951 til 2006 og byggja á rannsóknum Friðdórs Eydal sem starfaði um árabil í aðalstöðvum.
Í þáttunum koma fram áður óbirtar upplýsingar um starfsemi og tilgang herliðsins og einnig mikið af myndefni sem ekki hefur sést fyrr. Meðal annars eru tekin viðtöl við innlenda og erlenda fræðimenn og rætt við fyrrum hermenn og íslenska starfsmenn.
Handrit þáttanna er í höndum þeirra Friðþórs Eydal, Konráðs Gylfasonar og Guðbergs Davíðssonar. Leikstjórar þáttanna eru þeir Konráð og Guðbergur og framleiðendur eru Ljósop og KAM film.
Meðal nýrra upplýsinga í þáttunum eru hversu stórt hlutverk Keflavíkurflugvöllur lék í hernaðaráætlunum kjarnorkusprenguflota Bandaríkjanna á sjötta áratugnum með samþykki íslenskra stjórnvalda. Skýrt er frá því í fyrsta sinn hvernig starf kafbátaleitarflugs frá Keflavíkurflugvelli var háttað og einnig er varpað ljósi á samskipti stjórnvalda og mikilvæg hagsmunamál á borð við flugvallareksturinn, björgunarmál og þætti innlendra aðila í þjónustu og verktöku fyrir varnarliðið.