Heimildamynd um körfuna í Grindavík í bígerð
Árið 2013 eru 50 ár eru liðin frá því að hafist var handa að æfa og keppa í körfuknattleik í Grindavík með markvissum hætti. Í tilefni þess hyggst Körfuknattleiksdeild Ungmennafélags Grindavíkur framleiða heimildarmynd um sögu og sigra körfuknattleiksliða í Grindavík. Á síðasta bæjarráðsfundi óskaði körfuknattleiksdeild eftir stuðningi Grindavíkurbæjar við verkefnið. Magnús Andri Hjaltason formaður körfuknattleiksdeildar sagði í samtali við Víkurfréttir að ekki yrði farið af stað með gerð myndarinnar nema búið væri að tryggja fjármagn til verkefnisins. „Við viljum ekki nota fjármagn úr sjóðum deildarinnar og það yrði hugsanlega farið af stað með þetta ef búið væri að safna meirihluta þess fjármagns sem til þarf.“
Magnús segir þó að ekki liggi fyrir hvað svona verkefni kosti en hugmyndin sé góð og glæsilegt ef svona mynd myndi fæðast á 50 ára tímamótum. Blaðamaður skaut nafni Bergs Hinrikssonar að Magnúsi en Bergur sem er Grindvíkingurt er lærður kvikmyndagerðamaður og lék auk þess með Grindvíkingum í mörg ár. „Ef þetta verður að veruleika þá liggur beinast við að ræða við Berg. Þetta hefur bara verið borið undir hann yfir kaffibolla og ekkert ákveðið enn,“ sagði Magnús Andri að lokum.
Bæjarráð Grindavíkur samþykkti að veita 150.000 kr styrk til verkefnisins og verður forvitnilegt að sjá hvort verkefnið nái fótfestu.