Heimavöllur Keflavíkur ekki færður?
Framtíðaráform um íþróttasvæðin í Reykjanesbæ urðu tilefni til snarpra orðaskipta í bæjarstjórn Reykjanesbæjar á síðasta fundi hennar. A-listinn telur sjálfstæðismenn tala þvert ofan í það sem upphaflega hafi verið ráðgert varðandi framtíðarleikvang knattspyrnuliða Keflavíkur og Njarðvíkur á svæðinu vestan Reykjanesbæjar.
„Meirihluti sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ mun ekki beita neinum þvingunum til að menn fari að flytja starfsemi sína vestan Reykjanshallar. Þarna er hjarta Keflavíkur á sínum stað og við sjáum ekki annað en að aðstöðuna á knattspyrnuvellinum þar [við Hringbraut] þurfi að bæta og gera til fyrirmyndar þannig að hún geti vel nýst til framtíðar“, sagði Árni Sigfússon á fundinum. Árni gat þess að framtíðarsvæðið vestan Reykjaneshallar myndi hins vegar bæði nýtast Keflavík og Njarðvík. „Þarna er verið að tala um aðalleikvang en það er ekkert sem segir og engin sem getur túlkað það svo að við höfum verið að segja að þar með sé verið að leggja niður svæði Keflavíkur.
Það er alls ekki inn í myndinni og hefur aldrei verið,“ sagði Árni.
„Mér er minnistæður mikill fjölmiðlasirkus þegar málið var kynnt á sínum tíma og formaður ÍSÍ gat þess í ræðu sinni hvað menn væru framsýnir hér í Reykjanesbæ. Hér væri verið að taka undir íþróttaiðkun landsvæði sem væri stærra heldur en Laugardalssvæðið. Að hér hugsuðu menn stórt og til framtíðar. En ég get ekki betur séð að sjálfstæðimenn séu komnir niður á hnén í málinu. Að þeir séu búnir að láta svínbeygja sig,“ sagði Guðbrandur Einarsson.
Rúnar V. Arnarson, formaður knattspyrnudeildar Keflavíkur, kannast ekki við að ákvörðunin sé í þeirra höndum. „Það hefur verið okkar ósk að byggja upp okkar heimavöll á Keflavíkurvelli, en samkvæmt samkomulagi við bæjaryfirvöld var ákveðið að framtíðaruppbygging yrði við Reykjaneshöll. Ég veit ekki annað en að það standi, en við höfum ekki neinar tímasetningar. Okkar núverandi aðstaða er ekki nógu góð, en við erum nú að vinna með bænum að því að koma búningaaðstöðu og öðru í viðunandi horf fyrir næsta tímabil.“