Heilsuleikskólinn Skógarás með erindi á grískri menntakviku
Heilsuleikskólinn Skógarás á Ásbrú í Reykjanesbæ er þátttakandi í Erasmus+ verkefni sem kallast „Eco Tweet“. Erasmus+ er styrkjaáætlun ESB fyrir mennta-, æskulýðs- og íþróttamál. Eco Tweet leggur sérstaka áherslu á að kenna umhverfisvernd og þróun í átt að sjálfbærni í gegnum svokallaðar STEM greinar (Vísindi-tækni-verkfræði-stærðfræði/science-tecnology-engineering-mathmatics).
Skógarás er umhverfisskóli og hefur hlotið alþjóðlega viðurkenningu landverndar, Grænfánann tvisvar áður og áætlað að sækja um í þriðja sinn í tengslum við verkefnið og væntum við þess að flagga Grænfánanum á Íslandsfundinum sem verður 2020. Verkefnið er í samstarfi við 5 aðra leikskóla víðsvegar í Evrópu, nánar tiltekið í Noregi, Svíþjóð, Eistlandi, Tyrklandi og Grikklandi.
Samstarfið byggist að hluta til á því að samstarflöndin hittast og funda. Fundirnir eru til þess að kynnast menningu og ólíkum kennsluaðferðum hvers annars, með það markmið að læra hvert af öðru. Nú þegar er búið að halda þrjá fundi, sá fyrsti var í Tyrklandi í nóvember 2018, síðan Eistlandi í mars 2019 og nú síðast í júní í Grikklandi. Áætlaðir eru 3 fundir til viðbótar á næsta skólaári, Svíþjóð í nóvember, Ísland í mars og Noregur í júní.
Þrír fulltrúar á vegum skólans hafa sótt hvern fund, fundirnir hafa verið einstaklega lærdómsríkir og gefið okkur innsýn í menningu, þjóð og kennsluhætti viðkomandi landa.
Á síðasta fundi úti í Grikklandi var fulltrúum Skógarás boðið að vera með erindi á menntakviku í tengslum við verkefnið, skólann og íslenskt skólakerfi. Erindið flutti Ingibjörg Lilja Kristjánsdóttir leikskólakennaranemi á ensku og var erindinu miðlað í gegnum Youtube á rauntíma. Menntakvikan var vel sótt af grískum leikskólakennurum og fékk Ingibjörg lof fyrir.
Verkefninu er skipt upp í fjölda örverkefna og miðlað í gegnum samfélagsmiðlana eTwinning, Instagram, Pinterest og Facebook. eTwinning er aðgengilegt skólasamfélag á netinu, þar sem hægt að komast í samband við evrópska kennara og skólafólk, taka þátt í einföldum samstarfsverkefnum og sækja sér endurmenntun á vinnustofum og námskeiðum. Fyrri hluti Eco Tweet kallast Little Ecologist og snýr að umhverfisvitund, seinni hluti verkefnisins Little Scientist snýr meira að STEM greinunum. Verkefnið var valið verkefni maí mánaðar hjá eTwinning á Íslandi.