Heilsufélag Reykjaness skapar 300 störf
Sveitarfélögin Garður, Sandgerði, Reykjanesbær og Vogar auk Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, Bláa Lónsins og Keilis – Miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs stofnuðu í gær Heilsufélag Reykjaness um uppbyggingu á heilsutengdum tækifærum á Reykjanesi. Meginmarkmið félagsins er að skapa 300 störf á heilbrigðissviði á Reykjanesi á næstu þremur árum.
Heilsufélag Reykjaness er stofnað á grunni þeirra tækifæra sem Reykjanes býr yfir á sviði heilsu og vellíðunar. Markmið félagsins eru fólgin í markaðssetningu Íslands sem lands hreysti, fegurðar og heilsu. Heilsutengd ferðaþjónusta mun leiða til aukinnar fjölbreytni atvinnulífs á Reykjanesi, skapa ný störf og auknar gjaldeyristekjur. Heilsufélag Reykjaness mun stefna að því að: • Skapa 300 störf á heilbrigðissviði á Reykjanesi á næstu þremur árum • Stuðla að fjölbreyttara atvinnulífi á Reykjanesi • Stuðla að uppbyggingu heilsuþorps á því svæði sem áður hýsti starfsemi á vegum bandaríska varnarliðsins á Íslandi • Standa vörð um fjölbreytni og gæði í heilbrigðisþjónustu fyrir íbúa Reykjaness • Efla rannsóknar- og vísindastarf á Reykjanesi • Efla menntun og þjálfun á Reykjanesi • Að koma á samstarfi við virtar erlendar heilbrigðisstofnanir • Að koma á samstarfi við rannsóknaraðila frá virtum háskólum • Efla lýðheilsu í gegnum virkar rannsóknir og forvarnaraðgerðir • Stuðla að innflæði gjaldeyris í íslenskt samfélag • Stuðla að styrkingu ímyndar Íslands sem lands hreystis, fegurðar og heilsu • Stuðla að tækifærum fyrir sérhæfðar heilsulausnir fyrir erlendra viðskipavina á Íslandi • Stuðla að þjálfun sérfræðinga og annars starfsfólks í veitingu sérhæfðra heilsulausna • Þróa nýjar námsleiðir í samstarfi við Keili og aðrar menntastofnanir • Stuðla að þróun og innleiðingu gæðakerfa fyrir heilbrigðisþjónustu Félaginu er ekki ætlað að vera rekstraraðili heldur mun það leita eftir og stuðla að samningum við einkaaðila og stofnanir um framkvæmd á ákveðnum verkefnum sem miða að því að ná ofangreindum markmiðum. Í stjórn félagsins voru kjörin: Árni Sigfússon, Grímur Sæmundsen, Oddný Harðardóttir, Sigurður Valur Ásbjarnarson, Hjálmar Árnason, Róbert Ragnarsson og Kjartan Eiríksson. Í varastjórn voru kjörin: Gunnhildur Erla Vilbergsdóttir, Óli Örn Eiríksson og Magnea Guðmundsdóttir Ljósmynd: Hilmar Bragi Bárðarson |