Fréttir

Heilsuefling fyrir eldri borgara
Mánudagur 10. apríl 2017 kl. 06:00

Heilsuefling fyrir eldri borgara

Styrktarþjálfun nauðsynleg til þess að koma í veg fyrir hægfara vöðvarýrnun

Á næstunni mun fara af stað verkefni sem stuðlar að bættri heilsu eldri borgara á Suðurnesjum. Verkefnið er í samstarfi við dr. Janus Guðlaugsson, íþrótta- og heilsufræðing og lektor við Háskóla Íslands.

„Stjórnendur Reykjanesbæjar voru hrifnir af þessari hugmynd og kölluðu eftir frekari útfærslu sem nú er að verða að veruleika. Fjölgun í eldri aldurshópum kallar á nýjar útfærslur sem leysa geta ákveðinn vanda í ört fjölgandi samfélagi hinna eldri. Verkefnið er fyrirbyggjandi heilsuefling,“ segir Janus, en verkefnið er fyrir fólk 65 ára og eldri.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Markmið þess snýr að skipulagðri heilsurækt svo eldri einstaklingar geti sinnt athöfnum daglegs lífs eins lengi og kostur er, geti búið lengur í sjálfstæðri búsetu, geti komið í veg fyrir eða seinkað innlögn á dvalar- og hjúkrunarheimili og eigi möguleika á því að starfa lengur á vinnumarkaði.

Janus segir ávinninginn geta orðið gríðarlegan. „Það sem sérstaklega vantar í tenglum við líkamlega virkni hinna eldri er aukin styrktarþjálfun, en hún kemur í veg fyrir hægfara vöðvarýrnun. Hún hittir okkur öll þegar við eldumst og ansi kröftuglega, ef við spyrnum ekki við fótum. Markmiðið er að kenna fólkinu ýmsar aðferðir til að það geti séð um sig sjálft samhliða því að finna æfingar sem henta hverjum og einum til að byggja upp eða viðhalda sinni heilsu.“

Þátttakendum verður boðið að taka þátt í verkefninu endurgjaldslaust. „Verkefnið fékk styrk frá Uppbyggingarsjóði Suðurnesja auk þess sem Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hefur sýnt því áhuga að vera okkur innan handar með mælingar og ráðgjöf. Þá er það einnig mikilvægt að vita hvernig æskilegt sé að næra sig samhliða þjálfun, því styrktaræfingar skila sér ekki nægilega vel ef æskileg næring er ekki til staðar. Við munum fá næringarfræðing með fyrirlestur og öldrunarlækni til að skoða lyf og lyfjanotkun en margir hinna eldri eru á blóðþrýstings- og hjartalyfjum og slík lyf gefa haft áhrif á hjartsláttinn við þjálfun,“ segir hann.

Mælt er með 30 mínútna hreyfingu alla daga vikunnar og styrktarþjálfun að minnsta kosti tvisvar sinnum í viku. Þá er hvatt til hóflegrar notkunar á salti, sykri, gosdrykkjum og sætindum og mælt með fjölbreyttri næringu.

Þátttakendum verður boðið upp á ýmsar mælingar í upphafi og síðan á 6 mánaða fresti. Þetta eru meðal annars afkastagetumælingar, hreyfifærnimælingar og mælingar á líkamssamsetningu.

Verkefnið er unnið í nánu samstarfi við Velferðarsvið Reykjanesbæjar og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og yfirumsjón með þjálfunni, í samstarfi við Janus, hefur Ingvi Guðmundsson, BS-íþróttafræðingur og meistaranemi við Háskóla Íslands.

Janus hvetur fólk til þess að mæta á kynningarfund á Nesvöllum í Reykjanesbæ þriðjudaginn 18. apríl næstkomandi kl. 20 og fá frekari upplýsingar um verkefnið. „Þetta er framtíðin að bættri heilsu hinna eldri, þetta er það sem koma skal innan sveitarfélaga,“ segir Janus.

Hera Ósk Einarsdóttir, sviðstjóri Velferðarsviðs Reykjanesbæjar, er bjartsýn fyrir verkefninu. „Við viljum öll halda heilsu út ævina og geta verið sjálfbjarga þegar við eldumst. Til að geta það þurfum við meðal annars að huga að hreyfingu og næringu og það er aldrei of seint að byrja. Það er von okkar, sem stöndum að verkefninu, að við séum að mæta eftirspurn þeirra aldurshópa sem eru að komast á þriðja æviskeiðið. Markmið þeirra sem að verkefninu koma er að aðstoða þátttakendur við að gera æviskeiðið að tíma til þess að njóta, við góða heilsu, virkir og hamingjusamir. Til þess er leikurinn gerður.“