Heilsu- og forvarnavika í áttunda sinn
Heilsu- og forvarnarvika í Reykjanesbæ hefst í dag, mánudag og stendur til til 4. október. Boðið verður upp á fjölda viðburða um allan bæ í vikunni sem flestir eru þátttakendum að kostnaðarlausu. Þetta er í áttunda sinn sem heilsu- og forvarnavikan er haldin.
Skólarnir í Reykjanesbæ bjóða margir nemendum sínum upp á skemmtilega fræðslu og heilsusamlega upplifun í vikunni en jafnframt eru margvíslegir opnir viðburðir. Má nefna jakkafatajóga, örnámskeið um heilsulæsi, námskeið til að hjálpa reykingarmönnum að losna við nikótínfíkn, fyrirlestur um hvað sé að vera heilbrigður og kynningar á íþróttagreinum og námskeiðum sem íþróttafélög og líkamsræktarstöðvar bjóða.