Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Heilbrigðisráðherra: Suðurnesjamenn verða að nota sjúkrastofnanir sem eru í Reykjavík
Fimmtudagur 31. október 2002 kl. 17:06

Heilbrigðisráðherra: Suðurnesjamenn verða að nota sjúkrastofnanir sem eru í Reykjavík

Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra segir í samtali við Víkurfréttir að hann hafi vissulega áhyggjur af því ástandi sem nú hefur skapast á heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Ráðherra segir að á meðan fundin er lausn á þessari deilu þurfi Suðurnesjamenn að sækja læknisþjónustu til höfuðborgarsvæðisins. Honum finnst óþarfa stífleiki vera hjá heilsugæslulæknum:

Það hefur komið fram að læknar HSS muni einungis ná að sinna bráðatilfellum á stofnuninni. Hvað ætlar Heilbrigðisráðuneytið að gera núna þegar þessi staða er komin upp?

Við höfum fram að þessu verið að kanna hvort það væri enginn möguleiki til þess að læknarnir endurskoðuðu afstöðu sína og frestuðu uppsögnum sínum og ræddu frekar þær leiðir sem ég hef lagt fram. En það hefur ekki gerst. Ráðuneytið mun fara yfir stöðuna með yfirmönnum sjúkrahússins um að sinna neyðarþjónustu. Við munum reyna að fá lækna til starfa í stað þeirra sem hætta, en það er náttúrulega ekki auðvelt. Við munum efla hjúkrunarfræðingavaktir og gefa út leiðbeiningar fyrir það fólk sem eftir er á heilsugæslunni. Suðurnesjamenn verða að nota þær sjúkrastofnanir sem eru í Reykjavík.

Nú hefur yfirlæknir Heilbrigðisstofnunarinnar sagt að hann hafi miklar áhyggjur af því að það uppbygginarstarf sem fram hefur farið á heilsugæslunni síðustu ár glatist og sé fórnað. Hvað vilt þú segja um það?

Ég hef vissulega áhyggjur af þessu. Ég hvet læknana eindregið til að endurskoða þessa afstöðu sína því ég hef boðið þeim uppá ýmsa fleiri valkosti heldur en þeir hafa núna. Ég hef boðið þeim uppá samninga sjálfstætt starfandi heilsugæslulækna innan vébanda heilsugæslunnar. Ég hef boðið þeim uppá þjónustusamninga um að reka heilsugæsluna á eigin forsendum með ákveðnum skilyrðum og stöðlum. En þeir hafa ekki verið til viðræðu um neitt nema að fá leyfi til að opna einkastofur.

En hvað mælir gegn því að þeir opni einkastofur?

Með því væri verið að „splitta“ heilsugæslunni upp og það er þá hætta á því að læknarnir fari út af stöðvunum. Og þá er heilsugæslan orðin í tvennu lagi. Einnig liggur fyrir álit sérfróðra manna um að þetta verði dýrara og kostnaðarmeira fyrir sjúklinga þegar fram í sækir. Okkur hefur ekki gengið vel að halda utan um sérfræðingadótið og við höfum skýrslu frá Ríkisendurskoðun um það. Ég get ekki gefið grænt ljós á þessar kröfur heilsugæslulækna. Ég hef hinsvegar velt upp mörgum möguleikum sem eru skref í áttina að kröfum heilsugæslulækna.

Finnst þér þá vera óþarfa stífleiki hjá heilsugæslulæknum?

Mér finnst að þeir ættu að ræða málin betur og endurskoða afstöðu sína.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024