Heilbrigðismál: Suðurnesin fjársvelt
- Íbúar vilja umbætur í heilbrigðismálum, samkvæmt nýlegri könnun
Hjúkrunarfræðingur á HSS segir ljóst að Suðurnesin séu fjársveltasta heilbrigðissvæði landsins. Nýleg íbúakönnun sem gerð var á Suðurnesjum sýnir að heilbrigðismálin eru meðal þeirra sem íbúar telja hvað brýnast að ráðast í úrbætur á. Könnunin var kynnt á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum um síðustu helgi.
Í Víkurfréttum í dag er viðtal við Jón Garðar Viðarsson, svæfingahjúkrunarfræðing á HSS. Meðal þess sem fram kemur í viðtalinu er að á þessu ári hafi orðið 30 prósent aukning í komum á HSS og að árið sé orðið metár í sjúkraflutningum hjá Brunavörnum Suðurnesja. Þá er Slysa- og bráðamóttakan á HSS sú þriðja stærsta á landinu á eftir Reykjavík og Akureyri. Hann segir stöðugildi hjúkrunarfræðinga á bráðamóttökunni á Akureyri talsvert fleiri en á HSS. „Við hjúkrunarfræðingarnir á Slysa- og bráðamóttöku HSS sinnum kannski að meðaltali um 15 sjúklingum á hverri vakt en á Slysa- og bráðamóttöku LSH þykir mikið fyrir hjúkrunarfræðingana að fá 4 til 5 sjúklinga á vakt,“ segir hann. Í viðtalinu við Jón Garðar kemur jafnframt fram að frá árinu 2007 hafi íbúum á Suðurnesjum fjölgað gríðarlega en að heilbrigðiskerfið hafi engan veginn náð að fylgja fjölguninni eftir. „Það kemst í fréttirnar ef 100 manns mæta sama daginn á síðdegisvakt heimilislækna á Selfossi en það er eitthvað sem gerist að minnsta kosti tvisvar til þrisvar sinnum í viku hérna á Suðurnesjum.“ Nánar má lesa um málið á bls. 16. Blaðið er í rafrænni útgáfu hér fyrir neðan.