Hefur selt um 500 maðka í sumar
-ungur Njarðvíkingur selur laxa- og silungamaðka.
„Frændi minn sagði við mig að ég yrði að vinna eitthvað í sumar en ég má ekki fara að vinna í vinnuskólanum fyrr en ég verð 14 ára. Mér datt bara í hug að fara að týna maðka og selja þá,“ segir Kristján Falur Hlynsson 13 ára gamall strákur sem býr í Reykjanesbæ.
Þegar Kristján er spurður hvar hann týni maðkana segist hann gera það mjög víða. „En ég segi ekki frá bestu stöðunum – ef ég myndi gera það myndu allir fara að týna á þeim stað og ég ekkert selja,“ segir Kristján brosandi.
Kristján er búinn að týna um 5-600 maðka frá því hann byrjaði og salan hefur gengið vel. Hann selur bæði laxa- og silungamaðka. „Laxamaðkarnir eru stærri en silungamaðkarnir og þetta eru bara allt mjög fallegir maðkar,“ segir Kristján en honum hefur gengið vel að veiða á maðkana sem hann týnir. „Ég er búinn að fá nokkra silunga í sumar við Meðalfellsvatn. Þetta eru þrælgóðir maðkar og að sjálfsögðu eru mínir maðkar bestir.“
Kristján segist kunna vel við starfið og að hann geti hugsað sér að verða verslunarmaður. „Já, það gæti vel verið,“ segir hann en hægt er að panta maðka hjá Kristjáni með stuttum fyrirvara. „Það er hægt að hringja í mig með klukkutíma fyrirvara og þá verð ég tilbúinn.“
Laxamaðkarnir hjá Kristjáni kosta 35 krónur stykkið en silungamaðkarnir eru verðlagðir á 30 krónur stykkið. Þeir sem vilja panta góða veiðimaðka geta hringt í Kristján í síma 848-5991.
Myndirnar: Kristján hefur smíðað forláta kassa með lás þar sem hann geymir maðkana. Eins og sést á annarri myndinni eru maðkarnir stórir og fallegir, en hann selur bæði silunga- og laxamaðka. VF-ljósmyndir/Jóhannes Kr. Kristjánsson.