Hefja vinnu við stefnumótun um þjónustu við aldraða
„Sveitarfélagið Garður, ásamt samstarfssveitarfélögum um félagsþjónustu er að hefja vinnu við stefnumótun um þjónustu við aldraða. Á aðalfundi SSS fyrir rúmu ári síðan var ákveðið að unnið verði að sameiginlegri stefnumótun um þjónustu við aldraða á Suðurnesjum en ekki náðist samstarf um að halda þeirri vinnu áfram sameiginlega“. Þetta kemur fram í bókun bæjarráðs Garðs við erindi Öldrunarráðs Suðurnesja.
Í erindinu er óskað eftir upplýsingum um það hvort Sveitarfélagið Garður hafi á einhvern hátt stuðlað að fjölgun hjúkrunarrýma á Suðurnesjum, sem og samþættingu heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónustu á Suðurnesjum.
„Nýlega ákvað Reykjanesbær að vinna sérstaklega að stefnumótun í því sveitarfélagi, þar af leiðandi hafa sveitarfélögin Garður, Sandgerðisbær og Vogar ákveðið að vinna sameiginlega að slíkri stefnumótun. Þar fyrir utan hafa félagsmálastjórar á svæðinu átt samstarf við HSS um stefnumótun og samþættingu á þjónustu við aldraða,“ segir jafnframt í bókuninni.