Hefja framleiðslu í lok júlí
- Byggingaframkvæmdum við kísilver að ljúka
Verið er að leggja lokahönd á byggingu kísilvers United Silicon í Helguvík. Áætlað er að byggingframkvæmdum ljúki á morgun, föstudag. „Í júlí verður framleiðslubúnaðurinn settur upp og við munum hefja framleiðslu 30. júlí. Þetta hefur því verið hraður lokasprettur að undanförnu,“ segir Magnús Garðarsson, framkvæmdastjóri United Silicon. Verið er að ráða fólk til starfa hjá kísilverinu og segir Magnús það ganga vel. Þegar fyrsta áfanganum verður lokið munu starfsmennirnir vera 62.
Einn ofn verður í byggingunni sem nú er verið að ljúka við. Samkvæmt áætlunum verður þremur eins byggingum bætt við á næsta áratug. Þá verður verksmiðjan sú stærsta sinnar tegundar í heiminum. Stækkun mun ráðast meðal annars af ástandi á kísilmarkaðnum. „Það kom smá lægð síðasta haust. Kísillinn hélt sér mjög lengi uppi miðað við járn, kopar og ál en fór svo því miður í svolitla lægð. Þetta er eitthvað sem gerist á tveggja til þriggja ára fresti og ekkert sem ástæða er að örvænta yfir.“ Áætlað er að kostnaður við framkvæmdirnar sem nú er að ljúka séu um tólf milljarðar.
Einn ofn verður tekinn í notkun í fyrsta áfanga. Áætlað er að þeir verði orðnir fjórir innan áratugar.
Tafir á framkvæmdum við höfnina í Helguvík hafa verið í fréttum að undanförnu og er United Silicon með samning við Reykjaneshöfn um að hafnarkanturinn verði stækkaður svo að fyrirtækið hafi hluta af honum fyrir sig. Magnús segir að á meðan ekki séu fleiri fyrirtæki í Helguvík gangi hlutirnir upp, það væri þó mun betra fyrir kísilverið að hafa sinn eigin hafnarkant. „Það myndi auðvelda starfið fyrir okkur. Til dæmis gætum við verið með okkar eigin löndunarbúnað á höfninni en það er ekki hægt í dag. Við tökum á móti hráefninu í vörubílum og keyrum í hráefnisgeymsluna. Ef við hefðum okkar eigin hafnarkant gætum við flutt hráefnið á færiböndum sem væri hentugra.“
Í verksmiðjunni verður kísill unninn úr kvarsi. Kvarsið er flutt hingað til lands frá Spáni og Frakklandi. Að sögn Magnúsar er kísillinn svo notaður í ýmsar vörur, svo sem tannkrem, sjampó, dekk, ýmis kíttiefni og fleira. Þá er kísill einnig notaður í sólarrafhlöður og segir Magnús það eina helstu ástæðu fyrir vexti markaðarins í samanburði við aðrar tegundir málma.