„Hefði einhvern tíma þótt almannavarnaástand”
- 200 manns slasast alvarlega eða láta lífið árlega í umferðinni
Eftir banaslys á mótum Hafnavegar og Reykjanesbrautar í síðustu viku var stofnaður hópur á Facebook um það markmiði að þrýsta á stjórnvöld um að tvöfalda Reykjanesbraut frá Keflavíkurflugvelli til Hafnarfjarðar. Á stuttum tíma eru hátt á 17. þúsund orðnir meðlimir í hópnum og því ljóst að málið stendur mörgum Suðurnesjamönnum nærri enda eiga flestir ef ekki allir reglulega leið um Reykjanesbraut. Grindvíkingurinn og þingmaðurinn Vilhjálmur Árnason á sæti í umhverfis- og samgöngunefnd Alþings og kveðst hann vona að tilkoma hópsins hreyfi við bæði þingmönnum og sveitarstjórnarmönnum á svæðinu. Tvöföldun Reykjanesbrautar er ekki á samgönguáætlun Alþingis sem gildir til ársins 2018. „Það hefur vantað að aðilar hérna á svæðinu sameinist um þetta stóra baráttumál. Á hvaða vettvangi leggja sveitarfélögin á Suðurnesjum áherslu á mikilvægi tvöföldunar Reykjanesbrautar? Af hverju er þetta ekki eitt af áherslumálum hjá fyrirtækjunum á svæðinu eins og til dæmis Icelandair og Isavia? Að starfsfólkið þeirra sé öruggt á leið í og úr vinnu?“ spyr hann.
Vilhjálmur bendir á að í umsögn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum um samgönguáætlun í fyrra hafi ekki verið minnst einu orði á tvöföldun Reykjanesbrautar. „Þá var mest áhersla á hafnirnar á svæðinu, sem skilaði vissum árangri. Umsagnirnar í ár voru skárri en ekki nógu ákveðnar, að mínu mati. Þar kom fram að tvöfalda þyrfti Reykjanesbraut að Keflavíkurflugvelli en það ekki rökstutt með neinu móti.“
Þörf á samstilltri baráttu
Mislæg gatnamót á mótum Krísuvíkurvegar og Reykjanesbrautar voru ekki á samgönguáætlun Alþingis í fyrra en eru komin á hana núna eftir samstillta baráttu Hafnarfjarðarbæjar, íbúasamtaka og fyrirtækja í næsta nágrenni við gatnamótin, sem skrifuðu rökstuddar umsagnir til samgönguyfirvalda um það hvers vegna mislægu gatnamótin væru nauðsynleg og það sem fyrst. „Í rökstuðningnum var útskýrt hversu mikil umferðin um gatnamótin er og sömuleiðis hversu mikil umsvif fyrirtækja á svæðinu hafa aukist. Því var komið skýrt til skila að framkvæmdir við gatnamótin mættu ekki bíða lengur en til ársins 2016. Og hvað hefur gerst núna? Það er búið að flýta þessari framkvæmd og hún er komin í samgönguáætlun, eins og Hafnfirðingar kröfðust. Það þarf að gera nákvæmlega það sama á Suðurnesjum eins og tókst varðandi fiskihafnirnar.“
Vilhjálmur segir þó nauðsynlegt að taka með í myndina að á einu ári hafi margt breyst á Suðurnesjum og umsvif í atvinnulífi aukist gríðarlega. „Íbúum hefur fjölgað í öllum sveitarfélögum á Suðurnesjum, ferðamönnum hefur fjölgað, það eru miklir þungaflutningar vegna framkvæmda í Helguvík og aukin umsvif hjá ýmsum fyrirtækjum á Ásbrú. Reykjanesbrautin leikur stórt hlutverk varðandi það að hér líði fólki vel, það sé öruggt og að innviðir geti vaxið,“ segir hann.
Segir hægt að auka öryggi til bráðabirgða með litlum kostnaði
Kröfur hópsins Stopp hingað og ekki lengra á Facebook eru að gera úrbætur strax svo bæta megi umferðaröryggi. Meðal þess er að banna vinstri beygju af Hafnavegi inn á Reykjanesbraut og að setja hringtorg við gatnamót Aðalgötu og Reykjanesbrautar og sömuleiðis við gatnamót Þjóðbrautar og Reykjanesbrautar. Þá er þess krafist að tvöföldun Reykjanesbrautar verði á samgönguáætlun árið 2018. Vilhjálmur tekur undir kröfur hópsins. Hann var áður lögreglumaður hjá Lögreglunni á Suðurnesjum og kveðst á þeim tíma hafa lítið annað gert en að fara í útköll vegna árekstra á gatnamótunum á Fitjum og við Grænás. „Núna eru komin hringtorg þar en slysin hafa færst til á hin gatnamótin og því þarf tafarlaust að auka öryggi við þau. Það er bara tímaspursmál hvenær verður slys við gatnamót Reykjanesbrautar við Aðalgötu og Þjóðbraut. Stundum er staðan þannig við Aðalgötu að fólk treystir sér ekki til að taka vinstri beygju og fer því til hægri og snýr við í hringtorginu við flugstöðina.“ Vilhjálmur segir að breytingar við þessi gatnamót sé hægt að framkvæma strax án mikils kostnaðar. „Ég sé engin rök fyrir því að banna ekki vinstri beygju af Hafnavegi, Þjóðbraut og Aðalgötu. Það þarf aðeins að setja upp skilti og birta auglýsingu í Lögbirtingarblaðinu. Þannig yrði hægt að bæta umferðaröryggi mikið strax fyrir lítinn kostnað.“
Vilhjálmur nefnir einnig Norðurljósaveg sem liggur frá Grindavíkurvegi að Bláa lóninu sem slysagildru. Hugmyndir eru uppi um að vegurinn verði einstefnuvegur og að umferð frá Bláa lóninu beygi til vinstri frá lóninu og veginn sem liggur í kringum Þorbjörn. Þannig myndi umferðin frá lóninu fara inn á Grindavíkurveg nær byggðinni í Grindavík þar sem umferðarhraði er minni.
Gatnamót Þjóðbrautar og Reykjanesbrautar. Vilhjálmur segir þörf á að banna vinstri beygju við gatnamótin. VF-mynd/Aldís Ósk
Þingmenn samhuga í verkefninu
Aðspurður að því hvort mega eigi von á vakningu varðandi mikilvægi tvöföldunar Reykjanesbrautar núna kveðst Vilhjálmur ekki vera viss um að svo verði en ætlar þó að vera bjartsýnn og vona það besta. „Hinir þingmennirnir í kjördæminu hafa ekki stokkið á vagninn og tjáð sig um málið en ég veit að við erum samhuga í þessu mikilvæga verkefni. Stundum er sagt að því miður þurfi slys til að eitthvað gerist í málum sem þessum. Ég er engan veginn sammála því. Það verða fjölmörg slys um land allt á hverju ári en samgöngumálin komast samt aldrei í forgang.“
Vilhjálmur segir stjórnmálamenn á Íslandi almennt lítinn áhuga hafa á samgöngumálum og umferðaröryggi. „Ég hef aldrei botnað í þessu áhugaleysi síðan ég kom á þing. Það eru um 200 manns sem slasast alvarlega eða láta lífið í umferðinni hér á landi á hverju ári. Einhvern tíma hefði það verið kallað almannavarnaástand.“
Síðasta vetur sendi Vilhjálmur fyrirspurn til heilbrigðisráðherra um það hversu mikið umferðarslys kosta heilbrigðiskerfið. Slíkt er flókið að reikna út en meðal svara sem Vilhjálmur fékk var að á hverjum degi séu að lágmarki tvö til þrjú sjúkrarúm á Landspítala upptekin vegna bílslysa. Heilbrigðisráðherra vísaði í svari sínu í skýrslu frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Þar segir að hvert slys geti kostað samfélagið frá 100 til 600 milljónir. Í svarinu kom einnig fram að samtals kosti umferðarslys samfélagið 50 milljarða árlega.
Vilhjálmur segir aðeins tímaspursmál hvenær alvarlegt slys verði við gatnamót Aðalgötu og Reykjanesbrautar. Vf-mynd/Aldís Ósk