Hef trú á nýrri Suðurnesjasókn
– áður en langt um líður
„Gæfa Íslands í hruninu fólst meðal annars í því að íslenskum stjórnvöldum tókst ekki það ætlunarverk sitt að bjarga íslensku bönkunum. Allir stærstu seðlabankarnir, þ.e. seðlabankar Bretlands, Bandaríkjanna og Evrópu, neituðu Seðlabanka Íslands um aðstoð,“ segir Njarðvíkingurinn Hilmar Þór Hilmarsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, en hann gaf nýlega út bók um smáríki á alþjóðavettvangi undir heitinu Small States in a Global Economy – Crisis, Cooperation and Contributions.
Hilmar Þór Hilmarsson lauk Cand. Oecon prófi frá Háskóla Íslands 1987, M.A. prófi í hagfræði frá New York University 1989 og doktorsprófi í opinberri stjórnsýslu og þróunarhagfræði frá the American University í Washington, D.C. árið 1992. Hilmar er nú prófessor við Háskólann á Akureyri og kennir alþjóðaviðskipti og þjóðhagfræði ásamt því að vera virkur í rannsóknum á alþjóðavettvangi. Hann hóf störf við HA árið 2006 og á þeim árum sem síðan eru liðin hefur hann birt meira en 50 fræðilegar greinar og bókakafla og haldið yfir 100 erindi við 30 háskóla víða um heim, þar á meðal við suma af bestu háskólum í heimi, t.d. UC Berkeley, Cornell, Georgetown, Stockholm School of Economics, UCLA og Yale. Áður starfaði hann hjá Alþjóðabankanum í 12 ár og sem aðstoðarmaður utnanríkisráðherra í 4 ár. Hilmar var á ferðinni á Suðurnesjum um jólahátíðarnar og kemur víða við í spjalli sínu við Olgu Björt Þórðardóttur, blaðamann Víkurfétta.
Hilmar segir að fyrir hrun hafi Íslendingar aðeins fengið takmarkaða aðstoð frá Norðurlöndunum. „Það er barnaskapur að treysta á Norðurlöndin í ástandi eins og í efnahagshruni. Reynslan sýnir að þau hugsa fyrst og fremst um sína eigin þrengstu hagsmuni og þjóna gjarnan stærri þjóðum eins og Bretlandi. Þetta gerðu þau í hruninu 2008 og áður við útfærslu landhelgi Íslands. Eftir hrun 2008 var samningunum um ICESAVE skotið í þjóðaratkvæði tvisvar og þjóðin hafnaði þeim í bæði skiptin. Stjórnarskráin gamla sem margir gagnrýna nú hafði það sem þurfti til að stoppa ICESAVE samningana.“ Það megi því segja að fyrst hafi erlendir aðilar stöðvað íslensk stjórnvöld með því að neita að bjarga bönkunum og síðan þjóðin sjálf með þjóðaratkvæðagreiðslum um ICESAVE samningana. „Í okkar tilfelli var nauðsynlegt að láta bankana falla og gengisfelling var óumflýjanleg. Stundum er best að skipið sökkvi og þá verður viss hreinsun. Þessu var ólíkt farið í tilfelli Lettlands. Bankakerfið þar er í eigu Norðurlandanna, einkum Svía, og þeir, ásamt Evrópusambandinu, tóku yfir stjórn landsins og bönkunum var bjargað á kostnað almennings. Veikt velferðarkerfi Lettlands hrundi og atvinnuleysi varð mikið og er enn,“ segir Hilmar.
Nýtir sér Erasmus styrkjakerfið
Hilmar segir kreppuna hafa farið illa með íslenska háskóla og fjárhagur Háskólans á Akureyri hafi verið þröngur. Skólinn hafi lítið ráðrúm til að styðja rannsóknir eða fjármagna ráðstefnuferðir. „Ég hef nýtt mér ýmis styrkjakrefi t.d. Erasmus, sem fjármagnað er af Evrópusambandinu, og gengur út á það að þú kennir við erlendan háskóla 5 til 9 kennlustundir en færð í staðinn ferðakostnað að verulegu leyti greiddan. Kennslan erlendis bætist við kennsluskylduna heima þannig að álagið er mikið en þetta kemur sér vel í því hallæri sem háskólar á Íslandi búa við. Í leiðinni er ég oft með málstofur eða erindi á alþjóðlegri ráðstefnum.“ Hann bætir við að það megi gagnrýna Evrópusambandið fyrir marga hluti en það standi sig vel í að efla samskipti milli háskóla, bæði nemenda og kennara, og sé það vel. „Á sama tíma virðist vera sérstakt áhugamál íslenskra stjórnvalda að þrengja sem mest að háskólum hér á landi, sérstaklega landsbyggðarháskólum eins og Háskólanum á Akureyri eins og nýlega hefur verið fjallað um í fréttum. Þetta gengur í berhögg við stefnu núverandi ríkisstjórnar um eflingu allrar landsbyggðarinnar. Stjórnvöld á Íslandi virðast ekki hafa mikinn áhuga á að hafa öfluga háskóla, kannski vegna þess að í öflugum háskólum eru rannsóknir fyrirferðarmiklar og niðurstöður þeirra ekki alltaf þóknanlegar stjórnvöldum. Það er ekki eitthvað sem íslensk stjórnvöld virðast vilja. Það er vegið að hinu akademíska frelsi með því að sníða háskólunum þröngan stakk. Á endanum bitnar þetta harðast á því unga fólki sem sækir sína menntun í íslenska háskóla og svo á þjóðfélaginu í heild t.d. með minni hagvexti og lakari lífskjörum,“ segir Hilmar.
Spillt stjórnmálkerfi vandamál á Íslandi
Að mati Hilmars virðist líka vera ákveðin spilling í gangi í úthlutun stjórnvalda til að fjármagna rannsóknir við háskóla. Hann gaf nýlega út bók í New York þar sem hann skrifaði meðal annars um viðbrögð íslenskra stjórnvalda við kreppunni auk aðkomu erlendra aðila, aðallega erlendra seðlabanka. „Niðurstöður mínar þóttu nægilega merkilegar til þess að sumir af bestu háskólum í heimi buðu mér að kynnar þær á málstofum. Ég fjármagnaði þessa rannsókn að mestu með mínum eigin launum og gaf niðurstöðurnar út á bók sem kom út í Bandaríkjunum í október sl. Það var forlag í New York sem sóttist eftir því að birta þetta. Á sama tíma fékk prófessor við Háskóla Íslands fjármagn á silfurfati til að stunda sams konar rannsóknir án nokkurrar samkeppni. Eflaust mun hann vinna þetta með einhverjum innan HÍ en hvers vegna var öðrum háskólum ekki boðið að vinna þetta verk? Það á að vera samkeppni um úthlutun styrkja sem fjármagnaðir eru af hinu opinbera. Erfitt er að verjast þeirri hugsun að fræðimaðurinn við HÍ hafi verið fenginn til verksins til þess að koma með ákveðnar niðurstöður, þóknanlegar íslenskum stjórvöldum. Þetta er afar slæmt og sýnir að íslenskir stjórnmálamenn hafa lítið lært af hruninu sem hér varð haustið 2008. Spillt stjórnkerfi er enn mikið vandamál á Íslandi,“ segir Hilmar.
Prófar á 10 stöðum á landinu í einu
Spurður segist Hilmar ekki finna mikinn mun á hvaða flokkar eru við stjórn hverju sinni hvernig þeir sinna háskólunum. „Háskólinn á Akureyri er ótrúlega öflugur miðað við hvað hann hefur úr litlu að spila og þar er bæði staðarkennsla og fjarkennsla hringinn í kringum landið. Ég er oft að kenna og svo prófa á u.þ.b. 10 stöðum á landinu í einu. Þetta krefst mikillar tækniaðstöðu hringinn í kringum landið. Akureyri er of lítill bær til að standa undir háskóla og því er fjarkennsla mikilvæg. Þetta er snjallt viðskiptamódel sem hefur verið þróað fyrir norðan í gegnum árin. Háskólinn á Akureyri hefur komið vel út úr gæðakönnunum sem meðal annars eru framkvæmdar af erlendum sérfræðingum og ég álít að okkar nám sé algerlega sambærilegt við það besta sem boðið er uppá hér á landi. Auðvitað viljum við að okkar nám sé jafn gott og við góða erlenda háskóla.“
Starf háskólakennara, Alþjóðabankinn og utanríkisráðuneytið
„Starf háskólakennarans er ólíkt því að starfa hjá alþjóðastofnun eða opinberum stjórnvöldum. Þegar ég vann hjá Alþjóðabankanum skrifaði ég margar skýrslur í nafni stofnunarinnar og vann að opinberri stefnumótun í þremur ólíkum heimsálfum,“ segir Hilmar. Starf aðstoðarmanns ráðherra felist að mestu í að veita ráðherra (stjórnvöldum) ráð og í stjórnunarstörfum í ráðuneytinu. „Hjá Alþjóðabankanum var ég fyrst í Washington DC og vann einkum að Afríkumálefnum. Síðan fór ég til Lettlands og bjó í Riga og loks til Víetnam og var staðsettur í Hanoi. Þessu fylgja mikil ferðalög og ég hef ferðast til u.þ.b. 60 landa.“ Miklu meira frelsi sé í akademíunni að því leyti að þar miðli Hilmar Þór í eigin nafni en ekki í nafni ráðuneytis eða alþjóðastofnunar. „Þá þarf fyrst og fremst að sinna kennsluskyldu og stunda rannsóknir, birta greinar í fræðiritum, og miðla á málstofum og ráðstefnum. Ég legg mikla áherslu á að miðla mínum rannsóknum alþjóðlega enda snúast þær fyrst og fremst um alþjóðleg málefni sem er í samræmi við mína menntun og starfsreynslu.“
Rannsóknaráherslur og ný bók gefin út í Bandaríkjunum
Rannsóknir Hilmars hafa verið fjölbreyttar og undanfarið hefur hann fjallað um efhahagshrunið 2008 og afleiðingar þess, fjármögnun orkuframkvæmda, einkum jarðhita, og alþjóðlega þróunarsamvinnu. „Þetta eru ólík viðfangsefni. Ég fékk tvö rannsóknarmisseri, hausti 2013 og vorið 2014, og var annað misserið við Stockholm School of Economics og hitt við Universtiy of Washington. Ég fór þá að velta fyrir mér ólíkum viðbrögðum við hruninu í Lettlandi og á Íslandi. Áður hafði ég skrifað kafla um óheiðarleika íslenskra stjórnvalda fyrir hrun, þ.e. stjórnvöldu létu eins og ekkert væri þó bankakerfið væri að hruni komið, sem má flokka sem óheiðarleika, en það er líka hugsanlegt að ríkjandi stjórnvöld hafi alls ekki skilið hvað var að gerast. Þegar ég var í Bandaríkjunum sl. vor var mér boðið að fjalla um kreppuna á Íslandi við marga virta háskóla eins og Berkeley, Cornell, UCLA og fleiri. Í Yale vildu þeir samanburð á árangri Íslands og Lettlands.“ Erindin voru opin öllum; fræðimönnum, nemendum og almenningi. Lífleg umræða hafi fengist og oft tekist á. „Margir fræðimenn eru að skrifa um kreppuna og reyna að átta sig á hvaða lærdóm hægt sé að draga af þessum atburðum. Í Berkeley bað virtur pófessor mig um að lesa yfir kafla sem hann var að skrifa um Ísland til að fá viðbrögð. Við höfum síðan verið í sambandi og hann skrifaði vandaða umsögn um mína bók,“ segir Hilmar.
Líflegar samræður við nemendur og fræðimenn
Önnur rannsóknarverkefni sem Hilmar nefndi eru hrein orka, einkum árangur Íslands í nýtingu jarðhita, en þar stendur Ísland öðrum þjóðum framar. „Ég var með erindi um þetta m.a. við Earth Energy Institute við Cornell háskóla síðastliðið vor og hef oft fjallað um þetta á alþjóðlegum ráðstefnum, til dæmis á European Geothermal Congress. Hagvöxur og eftirspurn eftir orku eru mest í þróunar- og nýmarkaðsríkjum þar sem áhætta af fjárfestingu er líka mikil. Þessar framkvæmdir eru til langs tíma og fjármagnsfrekar. Ef við miðlum okkar reynslu til þessara ríkja þurfum við að mínu mati að gera það í samvinnu við alþjóðafjármálastofnanir eins og t.d. Alþjóðabankann.“ Þriðja rannsóknarefnið sem hann nefndi hér að ofan er alþjóða þróunarsamvinna. Hilmar er t.d. þeirrar skoðunar að Eystrasaltsríkin eigi að leggja meiri áherslu á að miðla sinni reynslu til ríkja sem skemmra eru komin í sinni efnahagsþróun eins og Georgíu, Moldóvu, Úkraínu, o.s.frv. „Ég hef flutt erindi við marga háskóla í öllum Eystrasaltsríkjunum og mér finnst þeir enn of hikandi við að láta til sín taka alþjóðlega. Ég hef átt í líflegum samræðum við fræðimenn og nemendur frá þessum löndum á undanförnum árum og ég held að þetta sé að breytast. Eystrasaltsríkin hafa hlutverki að gegna á alþjóðavettvangi.“
Um öll ofangreind efni og fleiri fjallar Hilmar í fyrrgreindri bók og sagt var frá í jólablaði Víkurfrétta. „Bókin hefur hlotið góða dóma erlendra fræðimanna sem mér finnst ánægjulegt og hvetur mig til að halda áfram mínum rannsóknum og það er alltaf skemmtilegast að standa frammi fyrir fullum sal fræðimanna og nemenda og taka þátt í fjörugum umræðum,“ segir Hilmar.
Ræturnar í Njarðvík og á Suðurnesjum
Hilmar tók stúdentspróf frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja og margir af bestu nemendum við Háskólann á Akureyri eru í fjarnámi frá Suðurnesjum. „Einn af mínum bestu vinum, Magnús Ó. Ingvarsson, stærðfræðikennari, kenndi við FS stærstan hluta sinnar starfsævi og var mjög farsæll kennari. Ég tel mig því vera í góðu samabandi við svæðið.“ Á yngri árum starfaði Hilmar fyrir Kaupfélag Suðurnesja, en þá var Gunnar Sveinsson kaupfélagsstjóri. Hann réð Hilmar sem ritstjóra kaupfélagsblaðsins. „Ég sakna svolítið samvinnuhreyfingarinnar og þeirrar hugsjónar sem fylgdi kaupfélögunum. Gunnar var góður stjórnandi, hófsamur og heiðarlegur en líka framsýnn. Það var hann sem lét byggja Samkaup sem enn má segja að sé aðal verslunin í Reykjanesbæ. Margir ungir stjórnendur fyrirtækja í dag mættu taka hann sér til fyrirmyndar og láta ekki græðgina stjórna sér. Nú er Kaupfélag Suðurnesja einhverskonar skúffufyrirtæki og ég efast um að þeir sem eiga það, félagsmennirnir, fylgist með eða fái að fylgjast með hvað þar er að gerast.“ Annað fyrirtæki sem Hilmar segist sakna er Sparisjóðurinn í Keflavík. „Þegar ég kem hingað suður verð ég var við mikla reiði almennings í garð fyrrum stjórnenda Sparisjóðsins og skil ég það vel. Það er eins og græðgin hafi heltekið þessa menn og þeir virðast ekki kunna að skammast sín. Það var ekki glæsilegt að horfa á þessa aldargömlu stofnun í rúst, liggjandi í blóði sínu.“
Sóknarfæri tengd flugstöðinni
Hilmar hefur ekki haft fast aðsetur í Njarðvík síðan 1983 þegar hann hóf nám við Háskóla Íslands og fylgist með úr fjarlægð. Hann á þó íbúð í Njarðvík og er þar oft áður en hann fer erlendis og á sumrin. „Mínar rætur eru í Njarðvík og á Suðurnesjunum eru sterkar þó ég hafi búið 16 ár erlendis og á Akureyri síðan 2006. Maður á aldrei að gleyma því hvaðan maður kemur. Reykjanesbær hefur orðið fyrir miklum áföllum. Það hefur verið farið geyst í fjárfestingum, varnarliðið fór og svo skall kreppan á 2008. Þó eru hér sóknarfæri t.d. tengd flugstöðinni sem eru orðin mjög umsvifamikil. Á Suðurnesjum býr dugandi fólk og ég hef trú á því að þar takist að hefja nýja sókn áður en langt um líður,“ segir Hilmar að lokum.