Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hef miklar áhyggjur af veirunni
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 27. febrúar 2020 kl. 08:44

Hef miklar áhyggjur af veirunni

-segir Helena Aradóttir, 16 ára Njarðvíkingur en hún dvelur á Norður Ítalíu.

„Ég hef miklar áhyggur af veirunni því hún er mjög nálægt okkur. Það er verið að ráðleggja fólki að vera heima og fara ekki á opinber svæði sem eru lokuð, t.d. tónleika eða körfuboltaleiki,“ segir Helena Aradóttir, 16 ára Njarðvíkurmær sem dvelur um þessar mundir sem skiptinemi í ítalska smábænum Salorno sem er í um hálfrar klukkustundar akstursfjarlægð frá borginni Bolzano. Þar hefur greinst eitt tilfelli Kóróna veirunnar.

„Ég hef séð fólk ganga um með grímur þannig ég get sagt að fólk virðist mjög hrætt um smit. Eins og staðan er núna þá er ég bara heima vegna þess að það er frí í skólanum í „Carnival“ viku. Á hverjum degi þa fer ég til borgarinnar Bolzano í skólann og á æfingar. Skólinn minn heitir Liceo Pascoli Bolzano og er mannvísindaskóli. Ég er á sálfræðilínu þar. Ég æfi einnig fótbolta með liði sem heitir FC Südtirol og í gær (mánudag) átti ég að fara á æfingu en það var annað hvort búið að aflýsa lestunum eða seinka þeim um meira en klukkutíma.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Helena dvelur hjá ítalskri fjöskyldu en hún fór utan á vegum AFS skiptinemasamtakanna síðasta haust. Hún gekk í Njarðvíkurskóla og æfði knattspyrnu með Keflavík áður en hún fór utan. „Ég fékk póst í gær frá AFS þar sem stóð að það sé búið að fresta öllum hittingum útaf veirunni,“ sagði Helena.

Einn ungur maður í Bolzano hefur smitast af veirunni og segir Helena af fólk í nágrenninu hafi áhyggjur af því. 

Sóttvarnalæknir á Íslandi ráðleggur gegn ónauðsynlegum ferðum til Lombardíu en 31 árs maður þar lést eftir að hafa greinst með veiruna. 

Sóttvarnalæknir ráðleggur gegn ónauðsynlegum ferðum til Lombardíu, Venetó, Emilía Rómanja og Píemonte á Ítalíu. Þeim sem dvalið hafa á þessum svæðum á undanförnum dögum og eru komnir til Íslands eða eru að koma til landsins er ráðlagt að halda sig heima í 14 daga í varúðarskyni.

Nokkrir Suðurnesjamenn hafa verið í ítölsku ölpunum að undanförnu en Sem stendur ná ráðleggingar gegn ónauðsynlegum ferðum til svæðanna ekki til skíðasvæða í Norður-Ítalíu en þau eru utan ofannefndra áhættusvæða og engin tilfelli hafa enn sem komið er verið tilkynnt þaðan.

Helena með „fóstur“-fjölskyldu sinni á Ítalíu. Að neðan má sjá skólann hennar.