Hávaðamælingar og kvartanir til grundvallar leyfisveitingum
Á sama tíma bæjarráð Reykjanesbæjar hafnaði Glóðinni um leyfi til reksturs veitingastaðar var Ránni veitt leyfi. Til grundvallar þeim ákvörðunum lágu kvartanir íbúa og hljóðmælingar Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja. Þetta kom fram í svari Böðvars Jónssonar, formanns bæjarráðs, á bæjarstjórnarfundi í gær við fyrirspurn Ólafs Thordarsen, bæjarfulltrúa A-lista, þess efnis hvort gætt væri jafnræðis við úthlutun leyfa.
Í svari Böðvar kom fram að fyrir um ári síðan hafi Glóðinni verið veitt leyfi tímabundið á meðan hljóðmælingar færu fram. Fyrstu niðurstöður þeirra voru innan viðmiðunarmarka sem gaf tilefni til útgáfu áframhaldandi leyfis en þó með því fororði heilbrigðiseftirlits að frekari mælingar þyrftu að fara fram. Niðurstöður frekari mælinga voru hins vegar langt yfir mörkum og því gat bæjarráð ekki mælt með leyfi. Til grundvallar lágu einnig ítrekaðar kvartanir íbúa í nágrenni staðarins.
Böðvar sagði að eðlilega hefðu vaknað upp svipaðar spurningar í bæjarráði varðandi veitingahúsið Rána. Hins vegar hefðu ekki borist kvartanir vegna staðarins. Þess vegna þótti ekki ástæða til að fara í kostnaðarsamar hávaðamælingar þar áður en til úthlutunar leyfis kom.