Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Haugabræla í byrjun desember
Fimmtudagur 6. desember 2018 kl. 13:09

Haugabræla í byrjun desember

Sjósókn frá Suðurnesjum getur oft á tíðum verið mjög erfið, sérstaklega vegna þess að tvær af aðallöndunarhöfnunum, Sandgerði og Grindavík, eru við opið haf. Ekki neinir firðir eða þess háttar sem geta skýlt bátunum.

Og það var einmitt það sem gerðist núna í lok nóvember og byrjun desember, því þá kom haugabræla og bátar komust svo til ekkert á sjó. Nokkrir skipstjórar á línubátunum sem voru að róa frá Sandgerði lásu þó í veðurspárnar, færðu báta sína yfir til Grindavíkur og náðu þannig eins dags forskoti á bátana frá Sandgerði miðað við róðrana. Reyndar voru bátarnir ekki margir sem fóru til Grindavíkur og voru þeir að veiðum mjög grunnt úti, rétt utan við Hópsnesið og áleiðis að Krýsuvíkurbjarginu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Meðal þeirra báta sem annars gerðu þetta voru Stakkavíkurbátarnir Katrín GK, Óli á Stað GK og Guðbjörg GK. Andey GK var þarna líka en hún hafði farið um miðjan nóvember til Grindavíkur, verið var að gera smá breytingar á Andey GK og kom hún þess vegna til Grindavíkur á undan hinum,

Aftur á móti heldur bátunum áfram að fjölga sem eru að koma til Suðurnesja því að Dóri GK og Von GK komu báðir frá Neskaupstað 26. nóvember og náðu báðir einni löndun áður en þessi brælutíð gekk yfir. Von GK kom með 5,6 tonn í einni löndun og Dóri GK 3,8 tonn í einni.

Eitt uppsjávarskip hefur komið sína hingað og er það Hákon EA sem kom til Helguvíkur með úrgang, eða hrat eins og það er kallað. Hákon EA frystir síldina um borð og landaði 89 tonnum af hrati í Helguvík, hann sigldi síðan til Reykjavíkur og landaði þar um 3 þúsund tonnum af frystri síld.

Fyrst maður er kominn inn á síldina þá er ansi gaman að skoða landanir á síld hérna á Suðurnesjum. Hún er enginn núna árið 2018 og þar með er það útrætt og pistilinn búinn.

Nei, ekki alveg. Við skulum fara í smá ferðalag aftur til ársins 1983 og skoða hvað var um að vera í síldarlöndunum þá, miðast þetta við október og nóvember 1983.

Grindavík: Þar var t.d. Skúmur GK með 384 tonn í níu á reknet. Arney KE 274 tonn í fimm á nót. Hafberg GK 595 tonn í sex róðrum á nót. Sighvatur GK 263 tonn í tveimur á nót. Sigurður Bjarnarson GK 93 tonn í einum. Sandgerðingur GK 93 tonn í einum á reknet. Sæunn Sæmundsdóttir ÁR 122 tonn í tveimur á Reknet. Hópsnes GK 626 tonn í sex á nót. Sigurjón Arnlaugsson HF 88 tonn í einum á nót. Happasæll GK 458 tonn í fjórum á nót. Helga RE 96 tonn í einum. Hrafn Sveinbjarnarson II GK 620 tonn í ellefu á nót. Hrafn Sveinbjarnarsson III GK 583 tonn í sjö á nót. Vörður ÞH 604 tonn í átta á nót. Skarfur GK 588 tonn í átta, Geirfugl GK 573 tonn í átta. Boði GK 548 tonn í sex.

Sandgerði: Arney KE 30 tonn í einum. Sigurður Bjarnarson GK 95 tonn í einum á nót. Happasæll GK 148 tonn í einum á nót. Geir Goði GK 646 tonn í sex róðrum á nót og má geta þess að Geir Goði GK var með aflahæstu síldarbátum á þessari vertíð 1983. Mummi GK 620 tonn í fimm róðrum og mest 163 tonn.

Keflavík: Sigurjón Arnlaugsson HF 96 tonn í einum.

Þetta eru nokkuð mörg nöfn sem koma hérna fram að ofan og ég er nokkuð viss um að lesendur þessa pistils kannast við þó ekki við nema einn bát af þessum sem eru nefndir hérna að ofan. Allt eru þetta bátar sem voru lengi á Suðurnesjum, og jú tveir aðkomubátar, Sæunn Sæmundsdóttir ÁR og Sigurjón Arnlaugsson HF. Reyndar er það með Sigurjón Arnlaugsson HF að þótt að hann væri skráður í Hafnarfirði þá réri hann alltaf á vertíð á línu bæði í Sandgerði og í Grindavík og var aflinn af bátnum unnin í Garðinum svo kannski má kalla þann bát líka sem Suðurnesjabát.

Er ekki við hæfi að birta blíðumynd úr Keflavíkurhöfn frá sl. hausti. Þeir Hafþór og Hallgrímur að flaka nokkra fiska. VF-mynd/pket.