Hátt í þrjú hundruð skjálftar
Á þriðja hundrað jarðskjálftar hafa mælst á Reykjaneshrygg í skjálftahrinunni sem hófst upp úr miðnætti í gær. Ekkert bendir til eldvirkni á svæðinu að sögn Matthew J. Roberts hjá jarðvísindasviði Veðurstofu Íslands.
Flestir skjálftarnir eru við Geirfugladrang um það bil 40 km suðvestur af Reykjanestá. Stærsti skjálftinn varð kl. 05:22 í morgun og mældist 3,6 að stærð.
Í byrjun síðustu viku varð einnig hrina á þessum slóðum en jarðskjálftahrinur eru algengar á Reykjaneshrygg, sem liggur á mörkum tveggja jarðskorpufleka.
Í byrjun nóvember á síðasta ári mældust nokkur hundruð jarðskjálftar í hrinu á þessum slóðum og voru nokkrir þeirra yfir 4 stig á Richer.
Heldur hefur dregið úr virkninni með morgninum en mesta virknin var frá kl. 4:30 – 06:00 og kom fram á jarðskjálftamælum um allt land. Að sögn Matthew hafa engar tilkynningar borist um að fólk hafi orðið vart við skjálftana.