Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hátt í 30.000 manns á hápunkti Ljósanætur
Sunnudagur 7. september 2003 kl. 01:35

Hátt í 30.000 manns á hápunkti Ljósanætur

Talið er að hátt í 30.000 manns hafi verið á hápunkti Ljósanætur þegar Hljómar frá Keflavík léku á útisviði á hátíðarsvæðinu og ljósin á Berginu voru kveikt við undirleik sérvalinnar hljómlistar frá Gunnari Þórðarsyni og mikilfenglegrar flugeldasýningar Sparisjóðsins í Keflavík. Steinþór Jónsson, formaður Ljósanæturnefndar staðfesti þessa tölu í samtali við Víkurfréttir nú í kvöld. Lögreglan í Keflavík sagðist ekki hafa gert út sérstaka "teljara" en hefði þær upplýsingar að um 30.000 manns hafi verið í bænum. Lögreglan var að búa sig undir nóttina og átti von á að hún yrði erilsöm. Meðal annars er stórdansleikur með Írafári og Skítamóral í Stapanum.Steinþór sagði mun fleiri hafa verið á hátíðarsvæðinu í dag en á sama tíma í fyrra. Þegar síðan landsleikurinn við Þjóðverja hófst hafi fækkað mikið í bænum og fólk hafi verið aðeins seinna á staðinn á kvölddagskránna. Hins vegar hafi fjöldinn verið meiri en í fyrra. Þá er talið að yfir 25.000 manns hafi verið á hápunkti hátíðarinnar. Í ár er hátíðarsvæðið mun stærra en í fyrra, á nýrri uppfyllingu og allt svæðið þéttskipað af fólki. Lét fólk ekki á sig fá þó svo einhverjir rigningardropar hafi fallið og vind blásið af hafi. Fólk klæddi sig eftir veðri. Veðrið í dag var hins vegar mun betra og sól í mestallan dag.

Myndin: Frá flugeldasýningunni í kvöld. VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024