Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hátæknifyrirtækið Málmey flytur starfsemi sína að Ásbrú
Fimmtudagur 24. maí 2012 kl. 09:32

Hátæknifyrirtækið Málmey flytur starfsemi sína að Ásbrú


Hátæknifyrirtækið Málmey hefur ákveðið að flytja starfsemi sína að Ásbrú í Reykjanesbæ og verður þar hluti af sívaxandi samfélagi frumkvöðla, fræða og atvinnulífs sem telur yfir 80 fyrirtæki og stofnanir, 500 starfsmenn, 600 námsmenn og 1.800 íbúa.

Málmey hefur yfir reynslumiklu og hæfu starfsfólki að ráða þegar kemur að hönnun og smíði á vélbúnaði tengdum sjávarútvegi. Verkstæði fyrirtækisins á Ásbrú verður búið fullkomnum tækjum sem gerir því kleift að takast á við fjölbreytt verkefni tengd málmsmíði auk smíða og þróunar á tæknilausnum fyrir sjávarútveg. Á meðal viðskiptavina Málmeyjar má nefna Samherja, Marel, Kötlu Seafood, Nesfisk, Icegroup, Haustak og fleiri sjávarútvegsfyrirtæki.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar:
„Á Ásbrú hefur mótast einstakt umhverfi fyrir skapandi og kraftmikil fyrirtæki. Við fögnum því að fá Málmey inn í þennan öfluga hóp og sjáum mikil tækifæri fyrir fleiri tæknifyrirtæki á Ásbrú. Málmey mun geta nýtt sér Mekkatrónik tæknifræðinám- og rannsóknir menntafyrirtækisins Keilis og þá rannsóknar- og smiðjuaðstöðu á Ásbrú sem þjónar jafnt stórum sem smáum tæknifyrirtækjum“ segir Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar sem hefur leitt uppbyggingu Ásbrúar undanfarin ár.

Guðmundur Sigþórsson, framkvæmdastjóri Málmeyjar:
„Við erum mjög spenntir fyrir því að flytja á Ásbrú og taka þátt í þeirri uppbyggingu sem stendur þar yfir. Málmey stendur á ákveðnum tímamótum og stefnir að auknum vexti á komandi árum. Við teljum okkur vera vel staðsetta á Ásbrú til að fylgja þeim vexti eftir. Þar skiptir m.a. máli góð tenging við tækniskóla Keilis og mun betri aðstaða til að mæta auknum umsvifum fyrirtækisins. Það kom okkur þægilega á óvart að starfsmenn okkar tóku mjög vel í þessar breytingar og styðja við bakið á okkur í þeim. Við vonumst ennfremur til þess að fá til liðs við okkur starfsmenn af Suðurnesjum því verkefnastaða fyrirtækisins kallar á talsverða fjölgun starfsmanna“ segir Guðmundur Sigþórsson, framkvæmdastjóri Málmeyjar.


Myndin: Kjartan Þór Eiríksson frá Kadeco og Guðmundur Sigþórsson frá Málmey undirrita samninga um húsnæði fyrir Málmey á Ásbrú í Reykjanesbæ. VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson