Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

  • Háskólanemar greiða 164.000 kr. á ári fyrir strætókort
    Önnur þéttbýlissvæði í nágrenni höfuðborgarsvæðisins niðurgreiða ekki annarkort fyrir háskólanema líkt og SSS.
  • Háskólanemar greiða 164.000 kr. á ári fyrir strætókort
    Borghildur Guðmundsdóttir, nemi í félagsfræði við HÍ.
Föstudagur 12. febrúar 2016 kl. 06:00

Háskólanemar greiða 164.000 kr. á ári fyrir strætókort

 
Háskólanemar, búsettir á Suðurnesjum, greiða 82.000 krónur á önn fyrir strætókort til að komast í skóla í Reykjavík. Borghildur Guðmundsdóttir er nemi í félagsfræði við Háskóla Íslands og búsett í Höfnum. Hún segir verð strætókorta vera allt of hátt sé tekið mið af námslánum. „Háskólanemar verða að leggja út 82.000 krónur í byrjun hverrar annar og fæstir hafa tök á því. Þetta háa verð á almenningssamgöngum heftir því aðgang fólks á Suðurnesjum að námi. Það er verið að tala um að minnka vægi einkabílsins en það á eftir að ganga hægt þegar verðið í strætó er svona hátt,“ segir hún.
 
Kristjana Vigdís Ingvadóttir er úr Reykjanesbæ og mun sitja í Stúdentaráði á næsta skólaári fyrir hönd Vöku. Hún segir marga nema hafa nýtt sér ferðir þegar boðið var upp á fríar ferðir frá Ásbrú sem ekki eru lengur í boði. „Það er mín upplifun að stúdentar vilji frekar flytja til Reykjavíkur í stað þess að borga þennan pening í rútuferðir á milli. En þar sem margir nýttu sér fríu þjónustuna þegar hún var í boði að þá grunar mig að margir væru til í að skilja bílinn eftir heima og fara með rútunni ef verðið væri hagstæðara,“ segir Kristjana. Þeir sem hún þekkir til og búa enn heima fara frekar á bíl til Reykjavíkur eða í samfloti með öðrum en að fara með rútunni. Kristjana segir Stúdentaráð vera að kynna sér hvernig almenningssamgöngum væri best háttað og að það muni beita sér í að þrýsta á þá aðila sem að málinu koma til að gera háskólanemum kleift að nýta sér þessa þjónustu. „Umhverfis- og samgöngunefnd Stúdentaráðs Háskóla Íslands hefur slegið á að í raun sé ódýrara að fara á einkabílnum í stað þess að borga fyrir rútuferðir hjá Strætó. Þetta er sorgleg staðreynd og algjörlega óboðlegt. Við viljum ekki hvetja fólk til þess að nota einkabílinn þar sem það er miður umhverfislega séð, en á móti verða að vera góðar samgönguleiðir svo að þær séu betri kosturinn.“
 
Marta Sól Axelsdóttir er nýkjörinn varamaður í Stúdentaráði Háskóla Íslands fyrir hönd Vöku. Hún býr í Vogum og keyrir á bíl í skólann. Hún segir lækkun á fargjöldum fyrir háskólanema vera ofarlega á forgangslista Stúdentaráðs. „Ég held að margir vilji frekar leigja á höfuðborgarsvæðinu en að keyra á milli, meðal annars því svo dýrt er að taka strætó,“ segir hún.
 
Stök ferð kostar 1.600 krónur
Þegar farið er með strætó frá höfuðborgarsvæðinu til Suðurnesja nær leiðin yfir fjögur gjaldsvæði. Almenningur sem greiðir með stökum miðum greiðir því fjóra miða. Sé greitt með greiðslukorti kostar hver ferð 1.600 krónur. Mánaðarkort fyrir almenning á þessari leið kostar 43.600 krónur. Til samanburðar kostar mánaðarkort á höfuðborgarsvæðinu, Græna kortið, 10.900 krónur. Mánaðarkort frá Akranesi og til höfuðborgarsvæðisins kostar 32.700 á mánuði og sömuleiðis til Hveragerðis. Verðið til Selfoss er aftur á móti það sama og til Suðurnesja.
 
Að sögn Berglindar Kristinsdóttur, framkvæmdastjóra Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, er ein af ástæðum þess að greiða þurfi fyrir fjögur gjaldsvæði sú að samgöngukerfið eigi að vera sjálfbært og að sveitarfélögin greiði ekki með því. „Það hefur verið reynt að reka kerfið á sjálfbæran hátt en það hefur ekki gengið upp og er það því rekið með halla,“ segir hún. Berglind bendir á að árið 2012 hafi þáverandi innanríkisráðherra tekið einhliða ákvörðun um að aflétta einkaleyfi sveitarfélaganna á Suðurnesjum á akstri á milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins en Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum var með einkaleyfið samkvæmt samningi við Vegagerðina. „Það var gríðarlegt högg fyrir Suðurnesin því sú akstursleið skilaði mestum tekjum. Þær tekjur voru svo notaðar til að lækka kostnað við aðrar leiðir.“
 
Dómsmál gegn innanríkisráðuneyti
Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum hefur höfðað  dómsmál á hendur Innanríkisráðuneytinu vegna áætlaðs tjóns sem sveitarfélögin urðu fyrir og er beðið eftir að fá dómskvaddan matsmann tilnefndan til að meta tjónið. „Komi til greiðslu skaðabóta munu þær renna inn í samgöngukerfið og þá skapast vonandi svigrúm til að fækka gjaldsvæðum og þar með lækka verð,“ segir Berglind. Eftir að einkaleyfi á akstri frá flugvellinum var fellt niður eru eftir leiðir sem ekki eru eins arðbærar. „Það er að sjálfsögðu markmiðið að fækka gjaldsvæðum um leið og hægt er því almenningssamgöngur eru byggðaþróunarmál,“ segir Berglind.
 
Varðandi verð á kortum til háskólanema þá segir Berglind vert að hafa í huga að önnur þéttbýlissvæði í nágrenni höfuðborgarsvæðisins niðurgreiði ekki annarkort fyrir háskólanema líkt og Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum. Reynt sé að halda verðinu eins lágu og mögulegt er.
 
Það sem af er ári hefur farþegum til og frá Suðurnesjum fjölgað jafnt og þétt. Á síðasta ári voru farþegarnir 129.000 og tímabilið september til nóvember voru þeir að meðaltali 16.000 á mánuði.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024