Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 29. desember 1999 kl. 22:24

HÁSKÓLANÁM HEFST Á SUÐURNESJUM HAUSTIÐ 2000

Háskólanám í hjúkrunarfræðum hefst á Suðurnesjum haustið 2000 en samningar um fjarkennslu frá Háskólanum á Akureyri voru undirritaðir í Eldborg í Svartsengi í gær. Háskólinn á Akureyri og Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum undirrituðu samkomulag þess efnis að komið yrði á fót samstarfsverkefni um háskólanám á Suðurnesjum. Markmið samstarfsins er að efla háskólamenntun og til að ná þessu markmiði verður nýtt fullkomnasta upplýsingatækni við nám og kennslu. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er einnig aðili að samningi þessum að hluta en upphaf málsins má rekja til þess að mikil vöntun hefur verið á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum á Suðurnesjum. Um er að ræða fjarnám um þriggjalínu fjarfundabúnað og um vefsíður á tölvuneti Háskólans á Akureyri. Skólinn mun skipuleggja námið, leggja til námsefni og annast alla kennslu í fjögur ár og bera faglega ábyrgð á náminu ásamt sérhæfðri bókasafnsþjónustu. MSS mun útvega námsaðstöðu, aðgang að tölvuveri, skipuleggja námsferðir til Akureyrar og fleira. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja mun sjá um verklega þjálfun nemenda, samkvæmt nánara samkomulagi við HA. Þorsteinn Gunnarsson, rektor HA hvatti Suðurnesjamenn að halda áfram að efla Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum. „Með því móti vonast HA til þess að geta styrkt starfsemi sína á Suðurnesjum enn frekar og bjóða upp á fleiri námsmöguleika“, sagði Þorsteinn. Skúli Thoroddsen sagði þetta stóra stund fyrir Suðurnesjamenn og bætti við að næsta skref eru aðrar fýsilegar greinar s.s. rekstsrarfræði í samvinnu við Samvinnuháskólann á Bifröst.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024