Hart tekist á í bæjarstjórn vegna uppsagna varnarliðsins
Fulltrúar meirihluta og minnihluta í bæjarstjórn Reykjanesbæjar tókust hart á um málefni Varnarliðsins á fundi sínum í gær. Á fundinum komu fram mismunandi sjónarmið um aðgerðir vegna uppsagna hjá Varnarliðinu og vildi meirihlutinn að málefni varnarliðsins yrðu í höndum ríkisstjórnarinnar þar sem megináhersla á viðræður við varnarliðið ætti að snúast um varnarhagsmuni Íslendinga. Fulltrúar minnihluta töldu hinsvegar að bæjarstjórn Reykjanesbæjar ætti að koma af stað viðræðum við fulltrúa varnarliðsins til að ræða uppsagnir og samdrátt hjá varnarliðinu. Hörð gagnrýni kom fram í máli minnihlutans þar sem Sjálfstæðismenn voru sakaðir um að gæta ekki hagsmuna fólksins. Sjálfstæðismenn gagnrýndu mjög málatilbúnað minnihlutans og sagði Böðvar Jónsson formaður bæjarráðs að hann gæti ekki setið undir því að minnihlutinn segði meirihlutann ekki gæta hagsmuna fólksins því það væri svo sannarlega gert. Bæjarfulltrúar voru sammála um að þetta væri ekki tími stórra orða og að huga þyrfti að því fólki sem misst hefði vinnuna. Í upphafi fundar lögðu báðar fylkingar fram bókun um málið, en Guðbrandur Einarsson bæjarfulltrúi minnihlutans lagði fram tillögu um að gert yrði fundarhlé þar sem fulltrúar minnihluta og meirihluta settust niður til að vinna að sameiginlegri bókun. Eftir stuttan fund náðist sátt um bókun sem samþykkt var með öllum greiddum atkvæðum.
Bókun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar:
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar lýsir áhyggjum af fjöldauppsögnum Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli enda er hér gengið mun lengra en í eðlilegum hagræðingaraðgerðum. Þá virðist vinnubrögðum við uppsagnir vera verulega ábótavant og óviðunandi sú óvissa sem áfram er sköpuð þrátt fyrir fyrirliggjandi uppsagnir. Mikilvægt er að leita allra leiða til að draga úr þeim tilfinningalegu og félagslegu erfiðleikum sem atvinnuuppsögn við þessar aðstæður veldur. Bæjarstjórn telur brýnt að flýta niðurstöðu í viðræðum við íslensk stjórnvöld um atvinnumál á svæðinu. Jafnframt er nauðsynlegt að formlegar viðræður verði teknar upp við ríkisstjórn Íslands um viðbrögð við þeim uppsögnum sem nú þegar hafa komið fram.
Björk Guðjónsdóttir, Árni Sigfússon, Böðvar Jónsson,
Guðbrandur Einarsson, Kjartan M. Kjartansson, Sveindís Valdimarsdóttir
Jóhann Geirdal, Sigríður J. Jóhannesdóttir, Ólafur Thordersen,
Garðar K. Vilhjálmsson, Ríkharður Ibsen.