Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Harmar linnulausar árásir á umhverfisráðherra
Þriðjudagur 13. október 2009 kl. 14:04

Harmar linnulausar árásir á umhverfisráðherra


Stjórn Landverndar harmar linnulausar árásir fylgjenda byggingar álvers í Helguvík á umhverfisráðherra landsins undanfarið og skorar á hlutaðeigandi aðila að útskýra fyrir þjóðinni hvernig það þjóni hagsmunum Íslendinga að verja nær allri orku sem hugsanlega eftir stendur á Suður- og Suðvesturlandi til einnar verksmiðju í þungaiðnaði.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu Landverndar. Samtökin beina þessari fyrirspurn til þeirra aðila vinnumarkaðarins sem hafa haft sig í frammi, til Norðuráls, til HS Orku, til Orkuveitu Reykjavíkur, og til viðkomandi sveitarfélaga og alþingismanna. Þá hvetja samtökin landsmenn alla „til að hlusta á unga fólkið sem á að erfa landið og til að gera boðskap nýafstaðins Umhverfisþings um sjálfbært Ísland að sínum,“ eins og segir í yfirlýsingunni.

„Áform um álver í Helguvík gera ráð fyrir einu stærsta álveri í Evrópu með 360.000 tonna framleiðslugetu og gífurlegri orkuþörf eða allt að 630 MW. Til samanburðar var framleiðslugeta álvers Ísal í Straumsvík 33.000 tonn þegar það tók til starfa árið 1969 og er því fyrirhugað álver í Helguvík um 11 sinnum stærra. Landvernd bendir á að ekki hefur verið sýnt fram á hvernig á að afla nægilegrar orku til svo stórs álvers, hvað þá hvernig flytja á orkuna frá stórum fjölda orkuvinnslusvæða til Helguvíkur án þess að valda verulegu eignatjóni á friðuðum svæðum og spilla ásýnd Reykjanesskagans með tröllvöxnum háspennulínum. Minnt er á að sum þeirra orkuvinnslusvæða sem horft er til hafa verndargildi á heimsvísu“ segir m.a. í yfirlýsingu Landverndar.

Yfirlýsinguna í heild sinni er hægt að nálgast á vef Landverndar hér.

---

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Ljósmynd/Oddgeir Karlsson - Horft yfir Helgivíkursvæðið.