Harma ástand mengungarvarna kísilvers
- Píratar á Suðurnesjum vilja láta stöðva starfsemi United Silicon í Helguvík
Stjórn Pírata á Suðurnesjum hefur sent frá sér ályktun þar sem ástand mengunarvarna hjá kísilveri United Silicon í Helguvík er harmað. Í gær voru birt myndbönd á vef Stundarinnar þar sem sjá má reyk frá verksmiðjunni hleypt út í andrúmsloftið og mikla reykmengun innanhúss í verksmiðjunni.
Eftirfarandi er ályktun stjórnar Pírata á Suðurnesjum um mengun frá kísilveri United Silicon í Helguvík:
Stjórn Pírata á Suðurnesjum harmar hvernig komið virðist vera fyrir kísilveri United Silicon í Helguvík hvað mengunarvarnir varðar.
Ef marka má umfjöllun Stundarinnar þar sem vitnað er í umkvartanir starfsmanna um aðbúnað og myndbönd sem sýna m.a. losun efna út í andrúmsloftið er tilefni til að efast um að allt sé með felldu í verksmiðjunni.
Í ljósi þess er full ástæða til að fara fram á að starfsemi verksmiðjunnar verði stöðvuð þegar í stað þar til öryggi starfsmanna og bæjarbúa hefur verið tryggt.