Harma ákvörðun ríkisins
Meirihluti bæjarráðs Voga harmar það að ríkið ætli ekki styðja við bakið á Unglingalandsmóti UMFÍ árið 2012. Vonir voru um að mótið yrði til að efla Íþrótta- og ungmennafélag Þróttar og skapa glæsilega umgjörð um 80 ára afmæli þess, segir í fundargerð ráðsins.
Eins og komið hefur fram í fréttum hafði Ungmennafélagið Þróttur undirbúið umsókn að mótshaldinu um tíma. „Hugmynd sú varð að engu er formaður UMFÍ tilkynnti Þrótti eftir fund með fjárlaganefnd ríkisins að ríkið komi ekki til með að styrkja sveitarfélög til framkvæmda við uppbyggingu íþróttamannvirkja á þessu ári. Ákvörðun stjórnar Þróttar er því sú að draga umsókn um mótshald til baka og gera ekki kröfu á sveitarfélagið um að auka fjármagn til framkvæmda við íþróttasvæði umfram það sem nú þegar hefur verið ákveðið,“ segir í tilkynningu sem forsvarsmenn Þróttar sendu frá sér á dögunum.
Bæjarráð fagnar engu að síður ábyrgri afstöðu UMFÞ til málsins og lýsir sig reiðubúið til að standa með félaginu að annarskonar móts- og hátíðahöldum í tengslum við 80 ára afmæli félagsins árið 2012 á nýju og glæsilegu íþróttasvæði.
Grindvíkingar hafa sýnt áhuga á því að halda mótið og íþrótta- og æskulýðsnefnd þar í bæ hvetur bæjaryfirvöld til að skoða málið.
---
Ljósmynd/Oddgeir Karlsson - Horft yfir íþróttasvæðið í Vogum.