Harður árekstur við flugstöðina
Ökumenn tveggja bifreiða voru fluttir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í fyrrakvöld eftir að bifreiðir þeirra skullu saman á Reykjanesbraut skammt vestan við Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Báðir fundu til verkja í höndum og hnjám en höggið var það mikið að líknarbelgir í báðum bílunum sprungu út. Bílarnir voru óökufærir og fjarlægðir með dráttarbifreið.
Fyrr í vikunni höfðu tveir verið fluttir með sjúkrabifreið á HSS eftir árekstur á Grindavíkurvegi. Um var að ræða ökumann og farþega annarrar bifreiðarinnar. Meiðsl þeirra voru ekki talin alvarleg.
Myndir með fréttinni eru af árekstrinum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. VF-myndir: Hilmar Bragi