Harður árekstur á Miðnesheiði
– skafrenningur og mikil hálka á veginum
Harður árekstur varð á Sandgerðisvegi á Miðnesheiði nærri ratstjárstöðinni nú síðdegis. Þar skullu saman tveir bílar, fólksbíll og jeppi. Fjölmennt lið viðbragðsaðila var kallað til, lögreglan, sjúkralið og slökkviliðsmenn á tækjabíl.
Mikið eignatjón varð í árekstrinum en eftir því sem Víkurfréttir komast næst urðu ekki alvarleg meiðsl á fólki.
Sandgerðisvegi var lokað um tíma vegna slyssins á meðan flök bílanna voru fjarlægð. Mikil hálka og skafrenningur er á Miðnesheiði og ástæða til að hvetja fólk til að fara varlega.
Meðfylgjandi myndir tók Hilmar Bragi á vettvangi slyssins nú síðdegis.