Hár hiti fremst í Nátthaga kemur á óvart
Rannsóknarstofa Háskóla Íslands í eldfjallafræði og náttúruvá segir að það komi á óvart hversu hár hiti er ennþá fremst í hrauninu í Nátthaga. Hraunið rann í eldgosinu í Geldingadölum 2021.
Rannsóknarstofan gerir að umfjöllun gervitunglamynd sem tekin var 5. desember 2022 og sýnir hitadreifinguna í hraununum í yfirstandandi Fagradalsfjallseldum, þ.e. í hraunbreiðu Geldingadalagossins 2021 og Meradalagossins 2022. Rauði liturinn í myndinni gefur til kynna heit svæði og blái liturinn köld svæði.
Í færslu á síðu Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í eldfjallafræði og náttúruvá segir að eins og við er að búast, þá er verulegur hiti í bæði 2021 og 2022 hraunbreiðunum næst gígunum, enda er þykkt hraunanna mest þar, allt að 100 metrar í tilfelli 2021 Geldingadalahraunsins og um 35 metrar í 2022 Meradalahrauninu, gígunum og hraunbreiðunum frá Fagradalsfjallseldum.
Það sem kemur á óvart er hár hiti í 2021 hrauninu fremst í Nátthaganum, hugsanlega vegna þess að innri kjarni hraunsins í Nátthaga hefur haldist nægilega heitur eftir að gosi lauk til þess að flæða fram og viðhalda hitaástandinu í hrauninu fremst í Nátthaga. Í hrauninu suðaustast í Meradölum. Þetta er svæðið þar sem bráðin kvika úr kjarna 2021 hraunsins braust út um yfirborssprungu dagana 11. og 12. ágúst 2022 vegna fergingar af völdum nýju hraunbreiðunnar sem hafði myndast í 2022 gosinu. Greinilegt að þarna hefur skotist inn og situr enn þá verulegt magn af heitri kviku sem skýrir upplyftinguna sem varð á 2021 hraunyfirborðinu á þessu svæði samfara kviku útflæðinu.