Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mánudagur 23. júlí 2001 kl. 17:16

Happasæll KE á heimsiglingu

Hinn nýi netabátur, Happasæll KE 94, sem verið hefur í smíðum í Kína lagði af stað áleiðis til Íslands sl. föstudag. Búist er við því að tog- og nótaskipið Guðrún Gísladóttir KE fylgi í kjölfarið einhvern næstu daga.Happasæll KE er tæpir 29 metrar á lengd. Skipið er sérhannað til netaveiða af Skipatækni ehf. og er það smíðað fyrir Guðmund Rúnar Hallgrímsson útgerðarmann í Keflavík og fjölskyldu hans. Sigmar Ólafsson hefur séð um eftirlit með skipinu á smíðatímanum fyrir hönd Skipatækni ehf. og í samtali við InterSeafood.com segir hann að menn séu sammála að vel hafi tekist til varðandi smíðina.
Töluverðar seinkanir hafa orðið á afhendingu skipanna sem verið hafa í smíðum fyrir íslenska útgerðarmenn í Kína. Sigmar segir þessar seinkanir vera af ýmsum ástæðum. Helsta skýringin sé sú að skipasmíðastöðin í Guangzhou hafi vanmetið gæðakröfur Íslendinga og tekið fyrir of mörg verkefni í einu. T.d. hafi hún verið með sjö skip í smíðum fyrir íslenskar útgerðir auk smíða á fjölmörgum skipum fyrir heimamarkaðinn. Að sögn Sigmars má e.t.v. líta á þessa seinkun sem ,,barnasjúkdóm” hjá kínversku stöðinni hvað varðar smíði á skipum fyrir Vesturlönd en erfitt sé að kenna um almennu reynsluleysi því haldið var upp á 150 ára rekstrarafmæli stöðvarinnar fyrir skömmu.

Sjá nánar á InterSeafood.com.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024