Hann beraði sig, vildi fá snertingu og snerti mig
Hafdís Hafsteinsdóttir er tvítug stúlka úr Reykjanesbæ sem er fórnarlamb kynferðisofbeldis. Tvö sumur, þegar hún var ellefu og tólf ára, var brotið gegn henni þegar hún var að gæta barna á heimili frænku sinnar í Reykjanesbæ. Húsbóndinn á því heimili braut kynferðislega gegn Hafdísi án þess þó að komast „alla leið“, eins og það er orðað. Síðan brotið var gegn Hafdísi hefur hún unnið úr sínum málum.
„Ég setti mig í samband við Blátt áfram fyrir tæpum tveimur árum síðan og vildi vinna eitthvað með þeim því ég vildi hafa samtökin sýnilegri og opna umræðuna meira og rjúfa þögnina sem er búin að vera. Ég er sjálf búin að ganga í gegnum svo mikið að ég ætti að geta notað það vonda sem ég hef lent í til að gera eitthvað gott,“ sagði Hafdís í viðtali við Víkurfréttir.
Auglýsingar Blátt áfram í gegnum tíðina hafa verið mjög opinskáar og jafnvel verið haft á orði að þær gangi fram af fólki. Hver man ekki eftir auglýsingum þar sem börn töluðu um það að enginn mætti snerta þeirra einkastaði. „Það má enginn snerta pjölluna mína,“ og annað á þeim nótum. Sumir vilja meina að gengið hafi verið of langt en Hafdís Hafsteinsdóttir, segist vita til þess að auglýsingarnar hafi orðið til þess að börn hafi brostið í grát og greint frá brotum gegn sér. Nú er að fara af stað átak sem hefst um helgina þar sem sjónum er beint að foreldrum.
Landsátak gegn kynferðislegu ofbeldi á börnum
„Við erum að fara af stað með herferð annað árið í röð, landsátak gegn kynferðislegu ofbeldi á börnum. Alheimsforvarnarmánuður gegn kynferðisofbeldi er í apríl á hverju ári. Í fyrra seldum við ljós með lyklakippu og vildum með því biðja fólk að vera upplýst með okkur um kynferðislegt ofbeldi á börnum. Við höfum ákveðið að gera þetta árlega og munum selja ljósið um allt land um helgina og fer ágóðinn í forvarnastarf á vegum Blátt áfram.
Í fyrra beindum við kastljósinu að strákum en einn af hverjum tíu sem lendir í kynferðislegu ofbeldi eru strákar. Talan er örugglega hærri því það er þekkt að strákarnir eru tregari til að greina frá því að þeir verði fyrir kynferðisofbeldi. Þeir eru lokaðri en stelpurnar og halda að það séu bara stelpur sem lenda í þessu. Staðreyndin er sú að ein af hverjum fimm stelpum á Íslandi verða fyrir kynferðislegu ofbeldi á einhvern hátt,“ segir Hafdís.
Þá er það staðreynd að 30 prósent gerenda eru konur. Í ár mun Blátt áfram beina athyglinni að foreldrum.
Foreldrar þurfa fræðslu til að vernda börnin sín
„Foreldrar þurfa að afla sér meiri fræðslu. Við erum því að ýta við þeim að verða sér úti um fræðslu til að geta verndað börnin sín. Það er líka staðreynd að 93 prósent þeirra sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi þekkja gerandann eða þann sem brýtur á sér. Getur það því verið einhver innan heimilis, nátengdur ættingi eða aðili tengdur fjölskyldunni. Minnsta hættan er í raun að það sé einhver ókunnugur.
Beitt kynferðislegu ofbeldi við barnapössun í Reykjanesbæ
Í mínu tilviki var það aðili innan fjölskyldunnar sem braut gegn mér. Ég var 11 og 12 ára þegar ég var að passa fyrir frænku mína og maðurinn hennar beitir mig kynferðislegu ofbeldi. Það var svo þegar ég er orðin 12 ára og í 7. bekk í skóla að ég segi mömmu minni frá því sem hafði gerst og sem betur fer er mér trúað“.
„Ég náði að segja nei“
Sálfræðingar hafa sagt að börn séu ekki alltaf tekin trúanleg og sérstaklega þegar svona mál koma upp innan fjölskyldna.
„Það kemur upp þetta ástand hvort eigi að trúa barninu eða halda fjölskyldunni saman. Sálfræðingurinn minn sagði að ég hafi verið mjög heppin að farið var alla leið með málið en það var kært og málinu fylgt mjög vel eftir. Því miður eru ekki öll börn sem fá svona góðan stuðning heima fyrir“.
Hafdís var í vist hjá frænku sinni og hennar manni í tvö sumur og mátti þola kynferðisofbeldið á þeim tíma.
„Ég vil líka segja við öll börn að ég náði að segja „NEI“ og stoppa þetta. Öll börn þurfa að vita að þetta er þeirra líkami og hann þarf að passa vel. Foreldrar þurfa einnig að fræða börnin sín vel um að þetta sé þeirra líkami og börnin þurfa að vita að það má segja nei við hvern sem er.
- Hvernig ofbeldi varðst þú fyrir?
„Einstaklingurinn sem áreitti mig náði ekki að komast alla leið því ég náði að stöðva það. Hann braut hins vegar gegn mér m.a. með því að hann beraði sig, vildi fá snertingu og snerti mig“.
- Hefur þú náð að vinna úr þínum málum?
„Já, ég fékk mjög góðan stuðning heima fyrir. Mér var vel trúað og gerandinn játaði. Ég fór í Barnahús og sagði mína sögu þar. Á þessum tíma var ég í miðjum samræmdu prófunum í 7. bekk. Það voru teknar skýrslur af mér hjá lögreglu. Í kjölfarið fór ég í vikulega tíma hjá sálfræðingi eins og þarf til að vinna úr þessum málum. Það var vel hugsað um heilsu mína heima og það skipti miklu máli.
Heppin að eiga góða mömmu
- Hvernig kom þitt mál upp á yfirborðið?
„Ég er mjög heppin að ég á góða mömmu sem ég treysti fyrir mínum málum. Hún er mikill nátthrafn og var frammi þegar ég lá andvaka eina nóttina og hugsaði um hvað gerst hafði. Þá gerði ég mér ekki alveg grein fyrir því sem hafi gerst og hversu rangt það var. Ég kallaði á mömmu eins og ég gerði oft þegar mér leið illa og þá kom bara gusan og við sátum saman alla nóttina og grétum saman. Daginn eftir hringdi mamma svo í mig þegar ég var komin heim úr skólanum og spyr hvort það sé ekki allt rétt og satt sem ég hafði sagt henni frá. Ég játaði og þar hófst strax ferli þar sem ofbeldið var kært og fylgt alla leið.
Gerandinn keypti mig líka, var að gefa mér alls konar hluti. Hann spurði mig reglulega hvort mér fyndist þetta óþægilegt sem hann væri að gera. Ég sagði alltaf nei, nei. Hann passaði því vel upp á að ég þagði.
Eftir þetta líða einn eða tveir mánuðir þar til skýrsla er tekin af mér. Það er mjög vel staðið að þessum málum hjá Barnahúsi og þægilegt umhverfi fyrir börnin“.
- Nú býr þessi einstaklingur ennþá í sama sveitarfélagi og þú. Hvernig tilhugsun er að vita af einstaklingi sem hefur brotið gegn þér í þínu nánasta umhverfi?
„Ég vil ekki nafngreina þennan einstakling. Það er ekki til að hlífa honum, heldur á hann börn og þau vil ég vernda. Mér finnst erfitt að vita af honum og líka vegna þess að frænka mín er ennþá með honum og það finnst mér erfitt. Það er erfitt að vita til þess að fjölskyldan hefur klofnað og ég hef spurt mig hvort ég hefði átt að þaga og hafa ástandið þannig gott. Svo hugsar maður hvað þetta var rangt. Auðvitað hefur verið erfitt að mæta honum eftir áreitnina en eftir því sem ég hef unnið meira í mínum málum verður það auðveldara þar sem ég veit að það var ekki eitthvað sem ég gerði rangt.
Hlaut skilorðsbundinn dóm
Gerandinn í málinu hlaut skilorðsbundinn dóm fyrir það sem hann gerði og Hafdísi voru dæmdar 150 þúsund krónur í bætur.
„Fyrir mér fær hann aldrei fyrirgefningu og ekki frænka mín heldur fyrir að vera með honum. En hún á sitt líf og sitt val en hún hefur gert öllum erfitt fyrir með því vali,“ segir Hafdís.
Heppin að hann náði ekki að komast alla leið
Hafdís segist heppin með það að sá sem braut gegn henni hafi ekki náð að komast alla leið. Hún segir að þó svo hann hafi ekki komið fram vilja sínum, þá finnist henni dómar í kynferðisbrotum alltof vægir á Íslandi og hún vilji sjá gerendur fá þann dóm að þurfa að sitja inni.
Hafdís segist ennþá vera að vinna í sínum málum og þetta fari aldrei úr hennar huga og sé í sálinni. Hún eigi sína erfiðu daga. Þegar erfiðleikar komi upp í einkalífinu þá komi hugsunin um þetta mál alltaf upp. Þetta sé sár sem rifni reglulega ofan af og grær aldrei.
Einelti í kjölfar kynferðisbrots
Þegar brotið var gegn Hafdísi var hún nemandi í Njarðvíkurskóla. Þetta hafi verið erfiður tími, því auk kynferðisáreitis hafi hún orðið fyrir einelti í skólanum og því flutt sig yfir í Holtaskóla. Þar var vel tekið á móti henni og eignaðist hún frábærar vinkonur sem hjálpuðu henni mikið. Hún segir eineltið hafi verið erfitt og sérstaklega þar sem það var á sama tíma og vanlíðan í kynferðisbrotamálinu. Þá séu þetta erfið ár hjá stúlkum því þarna eru þær á gelgjuskeiði sínu með tilheyrandi hormónaflæði og árekstrum.
Fannst lífið lítils virði
„Manni fannst þetta líf vera lítils virði og spurði sig, af hverju ég? Ég hugsaði um það hvers vegna ég þyrfti að ganga í gegnum þetta allt.
Þetta eiga ekki að vera leyndarmál
Hafdís segir að það eigi að tala opinskátt um kynferðisbrotamál við börn. Brotamálin eiga alls ekki að vera leyndarmál og það á að tala um það að gerendur geti verið hver sem er. Þá er netið einnig hættulegt fyrir börn og ungmenni, því þau vita oft ekki hver er á hinum enda línunnar.
Ætlar að nýta lífsreynslu og þekkingu
Hafdís ætlar sér að berjast áfram gegn kynferðislegu ofbeldi gagnvart börnum. Hún ætlar að nýta eigin lífsreynslu og þekkingu sem að þessu sinni verði beint til foreldra barna með hvatningu um að foreldrar ræði kynferðismál við börnin sín sem þannig læri að þekkja hætturnar. Hún hvetur einnig fólk til að taka vel á móti þeim sem á næstu dögum ætla að selja ljósið á lyklakippunni til styrktar Blátt áfram. Fólk geti einnig náð sér í ýmsar upplýsingar og fræðslu á blattafram.is.
Texti: Hilmar Bragi Bárðarson
Mynd: Páll Ketilsson