Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Handtóku stúlku fyrir ofstopa á veitingahúsi
Mánudagur 17. nóvember 2003 kl. 09:27

Handtóku stúlku fyrir ofstopa á veitingahúsi

Verkefni lögreglunnar eru fjölbreytt eins og sjá má þegar flett er í gegnum dagbók lögreglunnar. Meðal annarra verkefna lögreglu á kvöld og næturvaktinni sl. laugardag var eftirlit með útivistartíma barna og ungmenna.  Afskipti voru höfð af tveimur ungmennum sem voru úti eftir leyfilegan útivistartíma.  Útkall var á einn veitingastaðinn í Keflavík þar sem ölvuð stúlka var til vandræða.  Handtaka þurfti stúlkuna vegna ofstopa.  Eftir að hún var búin að róast á lögreglustöðinni var hún látin laus.  Lögreglumenn höfðu afskipti af tveimur mönnum vegna brota á lögreglusamþykkt Reykjanesbæjar.  Annar þeirra henti frá sér glerflösku þannig að hún brotnaði á gangstétt og hinn hrækti á hliðarrúðu lögreglubifreiðar sem átti leið framhjá viðkomandi. 
Kl. 01:07 var tilkynnt að þremur yfirhöfnum, meðal annars svörtum leðurjakka og svörtum frakka,  hafi verið stolið úr fatahengi í KK húsinu á Vesturbraut í Keflavík. 
Á næturvaktinni var einn ökumaður stöðvaður vegna gruns um ölvun við akstur.  Tveir ökumenn voru kærðir fyrir hraðakstur á Reykjanesbraut, tveir voru kærðir fyrir að vera aka bifreið án þess að vera búnir að endurnýja ökuskírteinið sitt og einn ökumaður var kærður fyrir að vera ekki með öryggisbeltið spennt við aksturinn.
Kl. 10:04 á laugardagsmorgun var tilkynnt um útafakstur á Garðvegi en engin slys á fólki. Þarna hafði ökumaður misst bifreið sína útaf en kom henni sjálfur upp á veginn og var farinn er lögregla kom að.
Kl. 12:20 var tilkynnt um þjófnað úr bifreið við Faxabraut í Keflavík. Bifreiðin var opin en úr henni var stolið framhlið (front) hljómflutningstækja. Mun það hafa gerst eftir kl. 22.00 í gærkvöldi.
Kl. 13:57 var tilkynnt um innbrot í bifreið við Hringbraut 76, Keflavík. Hafði bifreiðin verið læst en ekki sjáanlegar skemmdir á henni. Stolið hafði verið 12" bassaboxi og 6til 7 geisladiskum.
Á dagvaktinni voru fimm kærðir fyrir að nota ekki öryggisbelti, fjórir voru kærðir fyrir að færa bifreiðar sínar ekki til skoðunar á réttum tíma og skráningarnúmer voru tekin af einni bifreið þar sem eigandi/umráðamaður hafði ekki sinnt boðun lögreglu um að mæta með hana til skoðunar.
Kl. 21:45 var tilkynnt um þjófnað á ferðatösku úr bifreið á Bergvegi í Keflavík.  Í töskunni var fatnaður, skór og skartgripir.  Þjófnaðurinn átti sér stað sl. nótt milli kl. 01:00 til 02:00. 
Á kvöldvaktinni voru fjórir ökumenn kærðir fyrir að vera ekki með öryggisbeltið spennt.  Einn var kærður fyrir að aka um með þokuljós þrátt fyrir að veðurskilyrði til notkunar á slíkum ljósum væri ekki fyrir hendi.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024