Handtekinn tvisvar á sama klukkutíma
Lögreglan á Suðurnesjum handtók í gærkvöld ökumann tvisvar sinnum á sama klukkutímanum vegna aksturs hans undir áhrifum fíkniefna. Lögregla hafði fyrst afskipti af manninum, sem er rúmlega þrítugur, um hálf ellefu í gærkvöld. Hann ók þá Njarðarbraut og rásaði bifreiðin sem hann ók verulega, auk þess sem hraðabreytingar voru áberandi. Maðurinn bar merki fíkniefnaneyslu og var því handtekinn og færður á lögreglustöð. Sýnatökur staðfestu neyslu hans á kannabisefnum. Vinur hans mætti svo á lögreglustöð, fékk bíllyklana afhenta og tók við akstri bifreiðarinnar eftir að afgreiðslu málsins var lokið.
Nær klukkustund síðar stöðvaði lögregla manninn aftur, þar sem hann ók Grindavíkurveg. Hann var handtekinn í annað sinn og færður á lögreglustöð, þar sem hann undirgekkst sama ferli. Bifreið hans var ekið í stæði við lögreglustöðina og tók aðalvarðstjóri bíllyklana til geymslu.
Þá handtók lögreglan tvo ökumenn til viðbótar vegna gruns um fíkniefnaakstur. Annar reyndist hafa neytt amfetamíns og metamfetamíns. Hann var að auki sviptur ökuréttindum ævilangt. Hinn reyndist hafa neytt kannabis.