Handtekinn tvisvar á rúmum klukkutíma
- lyktaði af áfengi og var þvoglumæltur
Lögreglan á Suðurnesjum handtók karlmann um tvítugt tvisvar á rúmum klukkutíma um helgina. Maðurinn var fyrst stöðvaður í akstri, þar sem aksturslag hans þótti undarlegt. Frá honum lagði áfengisþef og var hann þvoglumæltur, er lögreglumenn ræddu við hann. Þá var hann ekki með öryggisbelti spennt og kvaðst hafa gleymt ökuskírteininu heima. Hann var handtekinn og færður á lögreglustöð.
Eftir tökur sýna og skýrslutöku var maðurinn látinn laus, rúmum klukkutíma síðar. Í anddyri lögreglustöðvarinnar varð hann skyndilega mjög æstur og ógnandi og hlýddi engum fyrirmælum sem lögregla gaf honum. Hann var því handtekinn aftur og vistaður í klefa þar til að af honum bráði.