Handtekinn grunaður um sölu fíkniefna
Lögreglan á Suðurnesjum handtók í fyrrinótt mann á skemmtistað í umdæminu vegna gruns um að hann væri með fíkniefni í fórum sínum og væri jafnframt að selja þau á staðnum. Maðurinn reyndist vera með um níu grömm af fíkniefnum í dós og gaf forpróf til kynna að um kókaín væri að ræða. Viðkomandi viðurkenndi í skýrslutökum á lögreglustöð að efnið væri kókaín. Hann neitaði hins vegar að hann hefði verið að selja fíkniefni.
Auk efnisins var hann með nokkra fjárhæð í vörslum sínum sem var haldlögð í þágu rannsóknarinnar.
Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja til að koma á framfæri nafnlausum upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.
Einnig er hægt að koma ábendingum á framfæri á Facebook - síðu lögreglunnar á Suðurnesjum: https://www.facebook.com/lss.abending/