Handtekinn eftir ólæti í flugvél
Handtaka þurfti flugfarþega sem kom til landsins fyrr í vikunni vegna óláta hans um borð í flugvélinni. Erlendi ferðamaðurinn hafði látið mjög ófriðlega um borð og reynt að efna til stympinga við áhafnarmeðlimi og farþega sem reyndu að aðstoða þá. Þá dreifði hann matarleifum um vélina og skvetti vatni á áhafnarmeðlimi. Lögreglan á Suðurnesjum handtók manninn við komuna til landsins, var hann færður í fangaklefa og tekin af honum skýrsla.
Lögreglan á Suðurnesjum handtók í vikunni karlmann sem hafði framvísað fölsuðum skilríkjum við komuna í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Skilríkjasérfræðingur flugstöðvardeildar LSS úrskurðaði að skilríkin væru grunnfölsuð. Maðurinn kvaðst hafa keypt þau fyrir fimmhundruð evrur á diskóteki í Albaníu. Hann var vistaður í fangaklefa og tekin var af honum skýrsla.