Fréttir

Handtekinn á flótta eftir rifrildi og árekstur
Myndin var tekin á vettvangi utan við Landsbankann í Reykjanesbæ.
Þriðjudagur 26. júlí 2016 kl. 12:14

Handtekinn á flótta eftir rifrildi og árekstur

Lögreglan á Suðurnesjum brást hratt við nú skömmu fyrir hádegi og handtók ökumann á flótta eftir árekstur á bílastæði í Reykjanesbæ.

Menn rifust fyrir utan afgreiðslu Landsbankans í Krossmóa í Reykjanesbæ sem endaði með því að einn mannanna settist undir stýri á bifreið og bakkaði af fullu afli á kyrrstæða bifreið á bílastæðinu við bankann.

Eitthvað fát kom á ökumanninn sem síðan ók á fullri ferð út af bílastæðinu og sem leið lá inn í Njarðvík. Munaði minnstu að hann keyrði á mann á bílastæðinu sem gaf honum merki um að stöðva.

Mörg vitni sáu hvað gerðist og var lögreglu þegar gert viðvart. Tveir lögreglubílar veittu flóttabílnum þegar eftirför og var bifreiðin stöðvuð í Njarðvík örfáum mínútum síðar og ökumaður handtekinn.

Eiganda bílsins sem ekið var á fyrir utan bankann var brugðið en jafnframt mjög þakklátur lögreglunni fyrir að handtaka þann sem varð valdur að árekstrinum.

Hann sagðist hafa orðið var við að mennirnir rifust fyrir utan bankann og ákveðið að leggja því ekki við hliðina á þeim, heldur aðeins fjær. Hann sagði að það hafi ekki endilega verið besta ákvörðunin eins og raunin varð á.

Public deli
Public deli