Handsamaði þjófa -„Ætlaði ekki að gefa þeim þetta eftir“, sagði Kristín í Kóda
Tvær konur á miðjum aldri gengu um á milli verslana sl. fimmtudag og rændu og rupluðu. Þær voru handsamaðar og við leit í hótelherbergi þeirra fannst ýmis varningur sem talinn er tengjast málinu. Kristín og Dóra í versluninni Kóda áttu heiðurinn af því að búðarþjófarnir voru handsamaðir en Kristín elti þjófana uppi þar til lögreglan skarst í leikinn.Að sögn Kristínar komu konurnar saman inní Kóda, en Dóra var þá ein að afgreiða í versluninni. Dóru fór að gruna ýmislegt þegar hún sá að önnur þeirra gerði sig líklega til að fara út úr versluninni með troðfullan poka af fötum, og Dóra bað þá um að fá að skoða í pokann. Konan neitaði og rauk út úr búðinni með varninginn. Dóra gafst nú ekki upp og lét fylgja vinkonunum eftir. Í því kom Kristín á vettvang og elti þjófinn uppá bifreiðastæðið við Nóatún, en hin konan lét sig hverfa.„Hún grýtti í mig pokanum þegar ég náði henni og sagðist ekki ætla að lenda í löggunni. Ég ætlaði ekki að gefa henni þetta eftir og hélt áfram að elta hana. Hún hefði komið með mér þó ég hefði þurft að draga hana á hárinu“, segir Kristín ákveðin. „Löggan kom síðan á móti mér og hirti konuna. Dóra gat gefið góðar lýsingar á hinni konunni og hún fannst skömmu síðar í góðu yfirlæti á Ránni“, segir Kristín en hún telur að andvirði þýfisins úr Kóda hafi verið tugir þúsunda króna.Kristín segir að hún og Dóra hafi verið mjög reiðar í fyrstu því yfirleitt treysti þær viðskiptavinum sínum og þessar konur virkuðu alls ekkert slæmar. „Þetta var þvílíkt stuð þennan dag og við vorum mjög stoltar yfir að hafa náð þeim. Þær virtust samt ekkert skammast sín fyrir það sem þær höfðu gert, enda skilst mér að þær stundi þetta. Önnur þeirra spurði til dæmis, þegar við komum upp á lögreglustöð, hvað hún þyrfti að hanga þar lengi. Maður verður reiður en við vorkennum líka svona fólki“, segir Kristín.