Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Handprjóna „samninganet“ í verkfalli
Mánudagur 17. mars 2014 kl. 15:08

Handprjóna „samninganet“ í verkfalli

- Verkfall framhaldsskólakennara hófst í morgun.

Verkfall framhaldsskólakennara skall á í morgun. Kennarar við Fjölbrautaskóla Suðurnesja opnuðu verkfallsmiðstöð, þá fyrstu á landinu í þessu verkfalli, í Kiwanissalnum við Iðavelli í dag og munu hittast þar daglega á milli kl. 13 og 15 á meðan á verkfalli stendur.

Þegar Víkurfréttir bar að garði ræddu kennarar saman samhliða handavinnu og einn og einn skoðaði stöðu þjóðmála í símanum sínum. Tveir kennarar handprjónuðu trefla sem þeir nefndu í gamni „samninganet“ því bjartsýni einkenndi hópinn og trú á að góðir samningar muni nást á skömmum tíma. Einn kennari var með tarotspil í farteskinu og sagðist hafa rýnt í þau í gær og ekki séð að samningar næðust a.m.k. í dag, en vonaði að spá fyrir morgundaginn verði betri. Annar kennari sagðist ætla að kenna samkennurum sínum að teikna andlitsmyndir ef verkfall drægist á langinn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Kennararnir voru sammála um mikilvægi verkfallsmiðstöðva og að kennarar hittist og standi saman, hversu lengi sem þetta verkfall gengur yfir. Þrír kennarar úr hópnum höfðu áður farið í verkfall, sem þá stóð yfir í 8 vikur, og þeir voru fullvissir um að staðan verði önnur í þetta sinn.

VF/Olga Björt