Hamingjusamir íbúar á Vallarheiði
Íbúar á Vallarheiði ánægðir með uppbyggingu og þjónustu. Helmingur aðspurðra telja líklegt að þeir muni búa áfram í Reykjanesbæ að loknu námi.
Mikill meirihluti íbúa á Vallarheiði í Reykjanesbæ er ánægður með uppbygginguna á svæðinu og þá þjónustu sem þar er boðið upp á samkvæmt nýrri könnun sem Capacent vann fyrir þróunarfélag Keflavíkurflugvallar.
Alls töldu 92% íbúa í könnuninni uppbyggingu á Vallarheiði hafa tekist mjög eða frekar vel og rúmlega 87% voru ánægð með hana sem stað til að búa á. Tæplega 93% voru ánægðir með íbúðina sem þeir voru með á leigu.
Þegar spurt var hversu líklegt eða ólíklegt það væri að íbúar myndu dvelja áfram í Reykjanesbæ eftir að námi lýkur töldu tæplega 50% að það væri líklegt.
Mikil fjölgun íbúa hefur orðið á Vallarheiði frá því að Varnarliðið fór af landi brott en nú búa þar um 1700 manns og fer ört fjölgandi. Keilir, miðstöð fræða og vísinda býður þar upp á háskólanám, þar eru nú einn leikskóli auk grunnskóla fyrir nemendur í 1. - 5. bekk og annar leikskóli opnar þar á næstunni. Alls eru yfir 40 ný fyrirtæki á svæðinu og má þar nefna gagnaver Verne sem þegar hefur auglýst eftir starfsfólki. Þjónustufyrirtæki hafa óðum verið að koma sér fyrir og má þar nefna bensínstöð, matvöruverslun og íþróttahúsið.
Boðið er upp á reglulegar ferðir á milli Reykjanesbæjar og Reykjavíkur fyrir námsmenn og nýttu um það bil 50% íbúa í könnuninni sér þá þjónustu þó mismikið. Af þeim voru tæplega 67% mjög eða frekar ánægðir með ferðirnar.
Meirihluti var ánægður með þjónustu Keilis eða 61,5% og rúmlega 78% var ánægður með internettengingar í húsnæði á Vallarheiði.
Könnunin var gerð 13. - 25. maí sl. í gegnum síma en í þýði voru 389 íbúar á Vallarheiði eða allir leigutakar á svæðinu á þeim tíma.
Svarhlutfall var 58,5%.
Mynd: Dagný Gísladóttir