Hamfarir á Garðskaga
Mikið hefur gengið á á Garðskaga síðustu daga. Sjór gekk á land í miklu brimi fyrir helgi. Sjást þess merki víða á Garðskaga en þang, grjót og sandur er kominn langt upp á land.
Stórstreymt var fyrir helgi og á sama tíma voru mikil læti í hafinu við Garðskaga. Að sögn Ásgeirs Hjálmarssonar, safnstjóra byggðasafnsins á Garðskaga, hefur veturinn verið harður í þessum efnum á Garðskaga og ágangur sjávar fyrir síðustu helgi ekkert einsdæmi.
Það er einnig á fleiri stöðum í Garði þar sem sjór hefur gengið á land, því neðan við Jaðar er þang í stórum stöflum eftir brimið síðustu daga.
Bæjaryfirvöld í Garði hafa verið í sambandi við Siglingastofnun vegna þessa ágangs sjávar, því huga þarf að traustari sjóvarnagörðum á þessum slóðum.
Meðfylgjandi myndir tók Hilmar Bragi á Garðskaga í gær og sýna þær vel hversu langt sjórinn hefur gengið inn á túnið við Garðskagavita.