Hamagangurinn minnir á goshver
Íslensk náttúra er síbreytileg og hættir ekki að koma mönnum á óvart, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Þar sést hvernig alda brýtur sér leið í gegnum hraun í Grindavík og skýst beint upp í loft. Minnir hamagangurinn einna helst á goshver.
Ómar Smári Ármannsson, sem þekkir náttúru og sögulegar minjar á Suðurnesjum vel, segir á mbl.is að þetta sé sjaldséð brimrótarfyrirbæri en hann birti myndir af fyrirbærinu á vef sínum, ferlir.is
„Þetta er undiralda sem rennir sér upp undir klappirnar fyrir neðan hraunið í Grindavík. Þá myndast svona gos, eða strókar,“ segir Ómar.
Í fjarska gætu menn haldið að það væri mikið öldurót, en svo sé ekki. Ómar segir að þetta gerist nánast upp úr engu. Það sé engin alda, sjórinn ládauður og fjara.
Strókurinn minnir einna helst á hver.
Ómar bendir á að þetta gerist einnig í Mölvík, skammt frá Ísólfsskála. „Þar eru hellar inn í landið sem hafa brotið sig upp. Þá myndast svona strókar. En það er í háflæði og miklu brimi,“ segir hann.
Ljósmynd: Ómar Smári.