Hallarekstur sveitarfélaga:Ný stjórn SSS mótmælir tillögum tekjustofnanefndar
Fyrsti fundur hinnar nýskipuðu stjórnar Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum var haldinn 26. október sl. Þá voru tillögur tekjustofnanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga lagðar fram og teknar til umfjöllunar. Stjórn SSS mótmælti harðlega að í öllum tillögum nefndarinnar um tekjustofna sveitarfélaga, skuli ekki vera tekið á hallarekstri sveitarfélaganna undanfarin ár og hann bættur. Í bókun stjórnarinnar segir m.a.: „Rekstrarhalli sveitarfélaga stafar að miklu leyti vegna ráðstafana ríkisvaldsins, samanber opinber gögn. Þá mótmælir SSS að sveitarfélögin verði neydd til skattahækkana til að geta sinnt lögbundnum verkefnum. SSS harmar að hlutdeild sveitarfélaganna í óbeinum sköttum skuli ekki vera í tillögum nefndarinnar.“Stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum skipa Skúli Þ. Skúlason formaður, Hallgrímur Bogason varaformaður og Óskar Gunnarsson ritari.