Hallarekstur sveitarfélaga áhyggjuefni
Rekstrarforsendur sveitarfélaga hafa tekið nokkrum breytingum á undanförnum árum þar sem ýmis þjónusta hefur færst frá ríki yfir á herðar sveitarfélaga. Þessum breytingum hefur fylgt aukinn kostnaður fyrir sveitarfélögin en tekjuleiðum þeirra hefur ekki fjölgað að sama skapi. Tekjustofnanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur að undanförnu unnið tillögur sem eiga að miða að því að draga úr hallarekstri sveitarfélaga. Tillögurnar hafa hins vegar fallið í grýttan jarðveg bæði hjá stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, bæjarráði Grindavíkur, hreppsnefnd Gerðahrepps og víðar.Tillögur nefndarinnar voru til umfjöllunar hjá stjórn sveitarfélaga á Suðurnesjum fyrir skömmu en stjórnin hafnaði tillögunum. Bæjarráð Grindavíkur og hreppsnefnd Gerðahrepps tóku málið til umfjöllunar á fundi í síðustu viku og mótmæltu harðlega tillögum tekjustofnanefndar. Í bókun bæjarráðs Grindavíkur segir m.a.: „ Bæjarráð harmar að nefndin skuli ekki gera að tillögu að nýsköpun tekjustofna sveitarfélaga, m.t.t. aukins frjálsræðis sveitarfélaga til tekjuöflunar og frekari hlutdeild í óbeinum sköttum og bifreiðagjöldum. Bæjarráð skorar á Ríkisstjórn Íslands að beita sér fyrir því að leiðrétting á útsvarsprósentu sveitarfélaganna leiði ekki til skattahækkana á almenning í landinu.“