Hallar verulega á Suðurnes í öldrunarmálum
Bæjarráð Voga tekur heils hugar undir bókun stjórnar Sambands sveitarfélag á Suðurnesjum um öldrunarmál sem fram kemur í fundargerð 663. fundar stjórnar frá 16. september sl. Bókun stjórnar SSS er svohljóðandi:
„SSS þakkar Sveitarfélaginu Garði og Sandgerðisbæ fyrir vel unna og athyglisverða skýrslu um heilbrigðis- og öldrunarmál á Suðurnesjum sem unnin var af Haraldi L. Haraldssyni. Niðurstöður skýrslunnar eru sláandi og draga enn og aftur fram hvað framlög ríkisins til opinberrar þjónustu á Suðurnesjum eru mikið lægri en tíðkast í öðrum landshlutum. Kemur þar meðal annar fram að framlög framkvæmdasjóðs aldraðra á árunum 2001 - 2010 voru langlægst til Suðurnesja. Einnig kemur fram að ef fjöldi hjúkrunarrýma á hverja 1.000 íbúa í hverju heilbrigðisumdæmi eru skoðuð hallar verulega á Suðurnesin.
Ljóst er að þrátt fyrir að öll hjúkrunarrými sem nú eru á svæðinu verði haldið opnum áfram eftir að Nesvellir opna þá uppfylla þau rými engan vegin áætlaða þörf hjúkrunarrýma á Suðurnesjum. Samt er gert ráð fyrir því að fjölda rýma muni loka á svæðinu og færast til Nesvalla. Raunveruleg fjölgun rýma við Nesvelli er því óveruleg. Slíkt er óásættanlegt enda ljóst að þörf er á öllum hjúkrunarrýmum sem nú eru opin og öllum þeim sem bætast við á Nesvöllum og meira til.
Framkvæmdastjóra er falið að óska eftir fundi með félags- og tryggingamálaráðherra um málefnið og þá alvarlegu stöðu sem málefni aldraðra eru komin í á Suðurnesjum líkt og fram kemur í skýrslunni.“