Hálka og lélegt skyggni
Talsvert hefur snjóað á Suðurnesjum í morgun og er mikil hálka á vegum og slæmt skyggni. Nokkum umferðaróhöpp hafa orðið og eru þau öll minniháttar.
Bíll ók aftan á annan bíl við Hafnarveg og bifreið ók út af við Voga rétt fyrir hádegi. Björgunarsveitir hafa verið fólki til aðstoðar en nokkrir hafa lent í því að renna út fyrir veg í hálkunni og festast.
Lögreglan á Suðurnesjum hvetur fólk til að sýna aðgát og bendir ökumönnum á að aka í samræmi við aðstæður. Ennfremur vill lögregla minna ökumenn á að vera klæddir eftir veðri, því þegar færð er slæm geti þeir búist við að festa bíla sína og þurfa að fara út úr þeim.
Myndin: Talsverð hálka er nú á Suðurnesjum eftir umtalsverða snjókomu í morgun. Myndin var tekin síðdegis í gær í hringtorgi á mótum Reykjanesbrautar og Grænásvegar. VF-mynd: Hilmar Bragi