Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Haldið upp á 60 ára afmæli bæjarstjórans í Garði
Þriðjudagur 12. júlí 2005 kl. 14:43

Haldið upp á 60 ára afmæli bæjarstjórans í Garði

Sunnudaginn 10. júlí, hélt Sigurður Jónsson, bæjarstjóri í Garði og frú Ásta Arnmundsdóttir, uppá 60 ára afmæli hins fyrrnefnda í Samkomuhúsinu í Garði.

Fjölmennt var og meðal gesta voru aðrir stjórar af svæðinu, bæði núverandi og fyrrverandi. Einnig komu félagar hans úr Eyjum og héldu uppá afmælið með félaga sínum. Eins og reikna mátti með, féllu mörg fyndin orð og athugasemdir af vörum ræðumanna. Sigurður Valur, bæjarstjóri í Sandgerði var veislustjóri og stjórnaði gleðskapnum af röggsemi. Meðal þeirra sem héldu tölu, Sigurði til heiðurs, var Ásta kona hans, en hún sýndi gestum nokkrar myndir frá ævi Sigurðar frá því er hann var að alast upp í Eyjum, hvernig fyrsta stefnumótið þeirra var, (það sprakk á bílnum og Ásta varð að labba heim), fyrstu kynni hans af stjórnmálum, störfum og fl. í Eyjum.

Kom fram að þegar hann las fyrir börnin sín, þá hafði hann lesið úr leiðara Morgunblaðsins og börnin verið fljót að sofna. Jón Gunnarsson, oddviti þeirra Vogamann tók til máls og sagði að þetta virkaði líka vel á sig, ef hann ætti erfitt með að sofna á kvöldin, læsi hann yfirleitt úr leiðara Moggans og það væri undantekning ef hann sofnaði ekki þegar í stað!

Ingimundur Guðnason færði Sigurði þakkir fyrir vel unnin störf og vonaði að það samstarf verði sem lengst og færði honum stóra ljósmynd af Garðinum að gjöf. Sigurður Ingvarsson sagði frá skemmtilegri sögu, þegar hann bað Sigurð nafna sinn að ræða við lögregluna í Keflavík að fara að fylgjast betur með hraðakstri í Garðinum og sérstaklega á milli Garðs og Keflavíkur. Sigurður, þá sveitarstjóri; hafi tekið vel í erindið og sagðist muni fara strax í málið. Sigurður Ingvars hafi verið að koma úr Keflavík þennan sama dag og séð blikkandi ljós og hugsað með sér: Þetta bara er farið að virka strax! Þegar hann hafi ekið fram hjá bílunum, hafi það verið frekar niðurlútur sveitarstjóri sem var þá sá fyrsti sem sektaður hafi veið í nýrri herferð lögreglunnar!

Sigurður Valur afhenti síðan Sigurði nafna sínum fimmta bindi af ævisögu Sigurðar Jónssonar og nær sú bók yfir árið 2005-2006 og bar bókin titilinn: Stjórnmálasaga Sigurðar Jónssonar, bæjarstjóra Mikla-Garðs. Vakti þessi uppákoma mikla kátínu. Sunginn var afmælissöngur afmælisbarninu til heiðurs og var ekki að heyra en að fólk hafi skemmt sér hið besta.

Vilja bæjarbúar Garð færa bæjarstjóra sínum bestu hamingjuóskir með daginn, með von um langa starfsdaga.
Kemur þetta fram á heimasíðu Garðs.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024