Halda áfram dælingu í fyrramálið
Dæling á olíu úr Fjordvik, skipinu sem strandaði í grjótgarði við Helguvíkurhöfn, hefur gengið hægar en búist var við. Dælingu var hætt í kvöld en verður haldið áfram í birtingu á morgun en þá er búist við því að öflugri búnaður verði kominn til Helguvíkur.
Byggð var landgöngubrú yfir í skipið og hefur ástand þess verið kannað. Ljóst er að sjór hefur komist í skipið en sjór er bæði í vélarrúmi og lestum.
Um 100 tonn af olíu voru í skipinu þegar það strandaði en björgunaraðilar gera sér vonir um að ná að dæla 80 tonnum af skipaolíu úr Fjordvik til að draga úr hættu á umhverfisslysi. Þó er ljóst að eitthvað af olíu hefur farið í sjóinn.