Hakkit, Tæknismiðja í Eldey
Í Eldey frumkvöðlasetri má finna Hakkit sem er tæknismiðja með það að markmiði að efla nýsköpun, tæknilæsi og skapa umgjörð um skapandi verkefni fyrir almenning.
Hakkit er fyrir alla þá sem vilja nýta sér tækni og opin hugbúnað hvort sem það eru vöruhönnuðir, sprotafyrirtæki, frumkvöðlar, fyrirtæki í nýsköpun, hönnuðir, nemendur eða almenningur.
„Við viljum kalla þetta samfélagslegan bílskúr,“ segja þeir félagar Hafliði Ásgeirsson og Xabier Þór Tejero Landa sem hafa unnið að verkefninu samhliða tæknifræðinámi sínu hjá Keili en flestir sem koma að verkefninu vinna að því í sjálfboðastarfi. „Okkur fannst vanta svona aðstöðu hér á svæðið og Hakkit er í takt við þann nýsköpunaranda sem ríkir hér á Ásbrú. Hér eru við að búa til samfélag þar sem nemendur, frumkvöðlar og aðrir skapandi einstaklingar geta þróað sínar hugmyndir smáar sem stórar og þú færð aðstoð til þess frá leiðbeinendum sem eru á staðnum“.
Frumkvöðlar og sprotafyrirtæki í Eldey hafa nýtt sér aðstöðuna á staðnum til vöruþróunar og vann fyrirtækið Mekano ehf. m.a. þar frumgerðina að verkefni sínu sem komst til úrslita í Gullegginu og hefur nú verið tilnefnt til norrænna nýsköpunarverðlauna. Þá hefur Hakkit verði nýtt í stærðfræðikennslu í Keili með notkun þrívíddarprentara og undirbúnings vegna þátttöku í nýsköpunarkeppnum svo eitthvað sé nefnt.
Tæknismiðjan byggir að hluta til á reynslu Fablab á Íslandi en þó enn frekar á grunni Hackerspace/Hakkasmiðja sem líta má á sem samfélagslega vinnustofu, tilraunastofu og eða verkstæði „garage“ þar sem einstaklingar með mismunandi þekkingu og hæfileika geta samnýtt, búið til og skiptst á hlutum, þekkingu og hugmyndum.
Áhersla er lögð á endurvinnslu og grænt umhverfi þar sem unnið er með „ónýt“ tæki og búnað og þeim fundin ný hlutverk í stað förgunar – á skapandi hátt. Margir hafa gefið smiðjunni gömul rafmagnstæki, tölvur og fleira sem hægt er að gefa nýtt hlutverk – eða taka í sundur í rannsóknarskyni fyrir unga áhugasama tæknifræðinga framtíðarinnar.
Hakkit er samstarfsverkefni Heklunnar, atvinnuþróunarfélags Suðurnesja, Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, Keilis og Fjölbrautaskóla Suðurnesja og er styrkt af Sóknaráætlun Suðurnesja.
Netfang: [email protected]