Háhýsi felld í Reykjanesbæ
Háhýsi rís ekki við Vallargötu sem er í gamla bænum í Reykjanesbæ. Tillaga skipulags- og bygginganefndar um breytingu á deiliskipulagi og leyfa byggingu þriggja hæða fjölbýlishúss var felld af bæjarstjórn á bæjarstjórnarfundi í fyrradag.Áður hafði skipulags- og byggingarnefnd hafnað byggingu sex hæða húss fyrirtækisins Meistarahúsa. Bæjarstjóri lagði fram tillöguna á fundinum um að hafna tillögu nefndarinnar sem og um að auglýsa lóðirnar sem eru við Vallargötu 9, 9a og 11 lausar til umsóknar. Var tillaga bæjarstjóra samþykkt með tíu atkvæðum. Kjartan Már Kjartansson (B) sat hjá.Miklar umræður um fundargerð skipulags og byggingarnefndar frá 12. október. Í upphafi umræðunar upplýsti Ellert Eiríksson bæjarstjóri að honum hefði fyrr um daginn borist undirskriftarlistar með nöfnum 522 bæjarbúa þar sem þeir mótmæltu byggingu bílageymsluhúss og háhýsis við Aðalgötu. Jafnframt vildu þeir að gildandi deiliskipulag héldi sér. Í fundargerð skipulags og byggingarnefndar kemur fram að Bjarni Marteinsson, höfundur samþykkts deiliskipulags telji að einstök háhýsi innan um lága byggð væri skipulagsslys. Nefndin lagði til að samþykktu deiliskipulagi á Vallargötu 9, 9a og 11 yrði breytt þannig að væri gert ráð fyrir þriggja hæða fjölbýlishúsi. Í gildandi deiliskipulagi segir að þarna skuli rísa einbýlishús.Minnihlutinn sakaði meirihlutann um að hafa skipt um skoðun frá síðasta bæjarstjórnarfundi og látið undan þrýstingi þeirra og bæjarbúa. Meirihlutafulltrúar sögðu að þeir hefðu viljað skoða málið áður en ákvörðun yrði tekin. „Ég þakka þeim sem stóðu að söfnun á undirskriftum og þeim sem settu nöfnin sín á listanna fyrir skjót og góð viðbrögð sem ég tel að hafi haft veruleg áhrif á framvindu málsins“, sagði Jóhann Geirdal (J). Kjartan Már Kjartansson (B) sagðist ekki geta verið á móti byggingu þriggja hæða húss þar sem sitt hvoru megin væru slík hús. Umsókn um byggingu 7 hæða húss við Vatnsnesveg hefur einnig komið til kasta bæjaryfirvalda. Á fundinum samþykkti bæjarstjórn að auglýst verði breyting á aðalskipulagi. Gert var ráð fyrir verslunarhúsnæði á lóðinni en því var breytt í íbúðarhúsnæði. Þó var ekki að heyra á máli bæjarstjóra að leyft yrði háhýsi á lóðinni.Fjöldi fólks mætti á bæjarstjórnarfundinn í fyrradag og fygldist með þessu hitamáli í afgreiðslu bæjarstjórnar. Var ekki laust við að nærvera fólksins hafi haft áhrif á umræðurnar þar sem sumum bæjarfulltrúum hljóp kapp í kinn. „Menn haga sér hér í pontu eins og krakkar í sandkassaleik“, varð minnihlutafulltrúanum Sveindísi Valdimarsdóttur (J) að orði. Böðvar Jónsson (D) sagði að sandkassaumræða væri fyrst og fremst minnihlutans.